Erlent

Leiðtogar hitta Gbagbo

Gbagbo ásamt forseta Sierra Leone að loknum fundi þeirra á miðvikudag.
nordicphotos/AFP
Gbagbo ásamt forseta Sierra Leone að loknum fundi þeirra á miðvikudag. nordicphotos/AFP
Laurent Gbagbo situr sem fastast á forsetastól Fílabeinsstrandarinnar þrátt fyrir að leiðtogar nokkurra ríkja í vestanverðri Afríku hafi sett honum úrslitakosti um að segja af sér eða búast við hernaðaríhlutun ella.

Forsetar Síerra Leóne, Benín og Grænhöfðaeyja sögðust í gær ætla að heimsækja Gbagbo aftur í næstu viku í von um að ná samkomulagi við hann. Þeir reyndu á þriðjudag að fá hann til að víkja úr embætti fyrir Alassane Ouattara, sem sigraði í forsetakosningum í landinu í nóvember. Gbagbo hefur ekki viljað viðurkenna úrslit kosninganna, þrátt fyrir að Sameinuðu þjóðirnar hafi staðfest þau.

Forsetarnir þrír héldu til Fílabeinsstrandarinnar í umboði fimmtán ríkja bandalags Vestur-Afríkuríkja, ECOWAS. Þeir höfðu vonast til þess að fá Gbagbo til að fara úr landi í fylgd þeirra gegn því að honum yrði tryggt hæli utanlands.

Þeir gerðu þó ekki alvöru úr hótun sinni um hernaðaríhlutun heldur ætla að reyna samningaleiðina áfram.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×