Innlent

Ráðuneytið vill dýrara húsnæði

Í heilbrigðisráðuneytinu er vilji til að sameinað Landlæknisembættið og Lýðheilsustöð verði til húsa í gömlu Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. 
Fréttablaðið/gva
Í heilbrigðisráðuneytinu er vilji til að sameinað Landlæknisembættið og Lýðheilsustöð verði til húsa í gömlu Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. Fréttablaðið/gva
Heilbrigðisráðuneytið vill að ný sameinuð stofnun Lýðheilsustöðvar og Landlæknisembættisins verði til húsa í gömlu Heilsuverndarstöðinni á Barónsstíg.

Þar er húsaleiga milljón krónum hærri á mánuði en af húsnæði sem Framkvæmdasýsla ríkisins leggur til að stofnunin leigi.

Þetta kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarp heilbrigðisráðherra um sameiningu Lýðheilsustöðvar og Landlæknisembættisins.

Framkvæmdasýslunni var fyrr á árinu falið að auglýsa eftir húsnæði fyrir nýju stofnunina. Ellefu tilboð bárust og var lagt til að samið yrði um leigu að Laugavegi 178. Um er að ræða 1.620 fermetra húsnæði og er leiguverðið 1.500 krónur á fermetra. Nemur ársleiga því 29 milljónum króna.

„Heilbrigðisráðuneytið óskaði hins vegar eftir því að ganga til samninga um hluta húsnæðis Heilsuverndar­stöðvarinnar við Barónsstíg. Þar er um að ræða 1.850 fermetra húsnæði og er leiguverð 1.850 krónur á fermetra, þ.e. ársleiga upp á 41 milljón króna,“ segir í umsögn fjárlagaskrifstofunnar. Mismunur­inn er tólf milljónir á ári, eða 41 prósent.

Þá er upplýst að sautján ár séu eftir af leigusamningi um núverandi húsnæði Landlæknis­embættisins á Seltjarnarnesi en ársleiga þar er 24 milljónir.

Mögulegt sé að framleigja húsnæðið en vegna aðstæðna á fasteignamarkaði sé ólíklegt að sama verð fáist. Takist ekki að semja um lækkun leigunnar falli mismunurinn á nýja emættið eða heilbrigðisráðuneytið. Þess muni gæta í rekstri stofnunarinnar sem þurfi að forgangsraða enn frekar en ella vegna húsnæðismálanna.

Í greinargerð frumvarpsins segir að meginmarkmið sameiningarinnar sé að starfrækja eitt öflugt embætti á sviði lýðheilsu- og heilbrigðismála.

Við sameiningu skapist tækifæri til að styrkja og efla starfið enn frekar en nú er. Samhliða verði unnt að auka hagkvæmni í rekstri, draga úr yfirbyggingu og samnýta mannafla betur en hingað til.bjorn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×