Innlent

Reykjavík biðst afsökunar

Fyrst var fjallað um Breiðavík en nú hefur komið í ljós að mörg börn voru meðal annars send þangað á vegum borgar og ríkis.
Fyrst var fjallað um Breiðavík en nú hefur komið í ljós að mörg börn voru meðal annars send þangað á vegum borgar og ríkis.

„Borgarráð biður alla þá einstaklinga sem vistaðir voru á stofnunum á vegum barnaverndaryfirvalda í Reykjavík á árum áður og urðu fyrir ofbeldi eða illri meðferð afsökunar." Svo hefst bókun sem samþykkt var á fundi borgarráðs í morgun.

Forsætisráðherra skipaði sérstaka vistheimilanefnd árið 2007 til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn. Nefndin var skipuð sérfræðingum og var formaður hennar Róbert R. Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.

Nefndin hefur skilað af sér þremur skýrslum þar sem meðal annars kemur fram að meiri líkur en minni séu taldar á því að vistmenn hafi á vissum starfstíma heimilanna orðið fyrir kynferðislegu áreiti af hálfu starfsfólks eða utanaðkomandi aðila. Borgaryfirvöld harma þá sorg og þungbæru reynslu sem börn sem vistuð voru á þessum heimilum urðu fyrir.

Jafnframt segir í bókun borgarráðs um málið:

„Starfsmenn Reykjavíkurborgar munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða og styðja þá einstaklinga sem um ræðir og þess óska, t.d. með viðtölum við ráðgjafa og sálfræðinga.

Á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar er veitt einstaklingsbundin ráðgjöf og stuðningur á sex þjónustumiðstöðvum í hverfum borgarinnar. Á hverri þjónustumiðstöð verður skipaður sérstakur tengiliður fyrir fyrrum vistmenn.

Í dag er lögð áhersla á að tryggja nægjanlegt framboð af stuðningsúrræðum í Reykjavík til að styrkja börn og fjölskyldur þeirra til að komast megi hjá vistunum barna utan heimilis eins og kostur er.

Ef nauðsyn krefst þess að börn séu vistuð á vegum barnaverndaryfirvalda er leitast við að tryggja að staðið sé faglega að verki og að formlegt eftirlit með vistunum á vegum Reykjavíkurborgar sé sýnilegt og virkt.

Áhersla er lögð á eftirlit með aðbúnaði og líðan barna meðan á vistun stendur og öllum börnum á að veita eftirfylgd og nauðsynlegan stuðning samkvæmt barnaverndarlögum bæði á meðan á vistun þeirra stendur og eftir að vistun lýkur.

Borgarráð þakkar vistheimilanefnd fyrir þá vinnu sem lögð hefur verið í greiningu á vistunarúrræðum fyrri tíma og harmar þær niðurstöður sem þar koma fram. Borgarráð heitir því að verklag hjá barnavernd í Reykjavík verði reglulega endurskoðað og metið með það að markmiði að tryggja öryggi barna og þjónustu við þau eins vel og kostur er."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×