Erlent

Borinn undir þing og dómara

Fyrrverandi samherjar Berlusconi og Fini á góðri stund.nordicphotos/AFP
Fyrrverandi samherjar Berlusconi og Fini á góðri stund.nordicphotos/AFP
Margt bendir til að stjórnmálaferill Silvio Berlusconi sé á síðasta snúningi, þótt hann hafi hingað til staðið af sér alla erfiðleika.

Í desember verða greidd atkvæði á þjóðþingi Ítalíu um vantrauststillögu á hendur Berlusconi. Hann hefur ekki lengur öruggan meirihluta á þinginu því fyrrverandi bandamaður hans, Gianfranco Fini, hefur sagt skilið við stjórnina ásamt fjórum ráðherrum úr flokki sínum, sem heitir Framtíð og frelsi.

Fini, sem er forseti neðri deildar þingsins, hefur hvatt Berlusconi til að segja af sér og stóð á mánudaginn við hótanir sínar um að segja sig frá stjórnarsamstarfinu.

Verði vantraust samþykkt verður boðað til þingkosninga. Vinsældir Berlusconis hafa dalað undanfarið en hann segist sannfærður um gott gengi í kosningabaráttunni.

Sama dag og vantrauststillagan kemur til atkvæða á þinginu, 14. desember, tekur stjórnarskrárdómstóll landsins til meðferðar umdeild lög, sem Berlusconi fékk samþykkt á þingi til þess að losna tímabundið undan réttarhöldum vegna spillingarmála og skattsvika. Samkvæmt lögunum má fresta slíkum málum ef sakborningar gegna embættum sem þeir hafa verið kosnir til. Margir telja lögin brjóta í bága við stjórnar­skrá landsins.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×