Innlent

Starfsfólk Skinneyjar-Þinganess: Niðurlægjandi jólagjöf

Valur Grettisson skrifar
Sjópokinn kemur eflaust að gagni fyrir ýmsa. Starfsfólk er þó ekki á eitt sátt við gjöfina.
Sjópokinn kemur eflaust að gagni fyrir ýmsa. Starfsfólk er þó ekki á eitt sátt við gjöfina.

„Þetta er bara mjög niðurlægjandi jólagjöf," segir starfsmaður útgerðarinnar Skinneyjar-Þinganess en starfsfólk þar fékk forláta sjópoka úr gúmmíi. Pokinn er dökkblár og 60 lítrar, merktur Skinney-Þinganes.

Samkvæmt heimildum Vísis eru starfsmenn ekki á eitt sáttir við jólagjöfina, enda ekki allir sem vinna úti á sjó sem starfa hjá útgerðinni.

Enda spurði viðmælandi Vísis, sem vildi ekki að nafn hans kæmi fram, hvað í ósköpunum starfsfólk í landi ætti að gera við sjópokann.

Þess má geta að aðrar útgerðir hafa gefið starfsfólki sínu öðruvísi gjafir í ár. Þannig birtist frétt í byrjun desember í Fréttablaðinu þar sem fram kom að Samherji hygðist greiða starfsfólki sínu í landi 260 þúsund króna launauppbót í desember til viðbótar við umsamda 46 þúsund króna desemberuppbót.

Uppbótin nemur í heildina 320 þúsund krónum á mann og kostar Samherja í kringum 80 milljónir króna að frátöldum tengdum gjöldum.

Reyndar hóf Samherji að gera reikninga sína upp í evrum á síðasta ári. Skuldbindingar félagsins eru að mestu í erlendri mynt og aðeins tæp eitt prósent lána í krónum. Því er félagið þokkalega statt.

Skinney-Þinganes hagnaðist um 3,6 milljarða króna í fyrra; en afskriftir hjá dótturfélagi þess, Nónu ehf. námu tveimur og hálfum milljarði króna. Hagnaðurinn er hinsvegar svipaður og var hjá Samherja á síðasta ári.

Ekki náðist í framkvæmdastjóra útgerðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×