Erlent

Medvedev varar við nýju vopnakapphlaupi

Dmitrí Medvedev flutti stefnuræðu sína á sameinuðu þingi í gær.
Fréttablaðið/AP
Dmitrí Medvedev flutti stefnuræðu sína á sameinuðu þingi í gær. Fréttablaðið/AP
Rússland, AP Dmitrí Medvedev Rússlandsforseti lagði í stefnuræðu sinni þetta árið sérstaka áherslu á nauðsyn þess að rússneskum stjórnvöldum tækist að semja við Vesturlönd um sameiginlegar eldflaugavarnir.

„Næstu tíu árin bíða okkar þessir valkostir,“ sagði hann í þingsalnum í Kreml. „Annaðhvort náum við samkomulagi um eldflaugavarnir og búum til sameiginlegan vettvang fyrir samstarf, eða þá, ef okkur tekst ekki að komast að sameiginlegri og uppbyggilegri afstöðu, að nýtt vopnakapphlaup fer af stað.“

Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Portúgal í síðasta mánuði samþykktu leiðtogar NATO nýja áætlun um eldflaugavarnir og buðu jafnframt Rússum að taka þátt. Vitað er að mikil andstaða er við þau áform meðal margra áhrifamanna í Rússlandi, ekki síst innan hersins.

Medvedev hefur hins vegar fyrir sitt leyti fallist á boð Atlantshafsbandalagsins, þótt óljóst sé nákvæmlega hvernig samstarfinu við Rússa verði háttað. - gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×