Lífið

Framtíðin er Gogoyoko

Pétur Einarsson, Kristján Gunnarsson og Helgi Már Bjarnason vilja að fólk læri að elska Gogoyoko vegna tónlistarinnar sem þar er að finna.
Pétur Einarsson, Kristján Gunnarsson og Helgi Már Bjarnason vilja að fólk læri að elska Gogoyoko vegna tónlistarinnar sem þar er að finna.

Sprotafyrirtækið Gogoyoko er dæmi um blómstrandi íslenskt hugvit en fyrirtækið er vettvangur fyrir tónlistarfólk til að selja tónlist sína og koma sér á framfæri á netinu. Um helgina opnar fyrirtækið nýja og glæsilega tónlistarbúð þar sem tónlistarmenn fá allar tekjur sjálfir af verkum sínum. Anna Margrét Björnsson fékk sér kaffibolla með þeim Pétri Einarssyni og Kristjáni Gunnarssyni og fékk að heyra meira.

„Það eina sem virðist erfitt að koma inn hjá fólki er það að þetta er frítt," segir Kristján Gunnarsson, markaðsstjóri Gogoyoko, um leið og hann kemur með rjúkandi heitt espresso. Þeir Pétur Einarsson sitja á líflegri og opinni skrifstofu í Mörkinni þar sem fyrirtækið á sér aðsetur.

Málverk eftir Hafstein Mikael Guðmundsson, málara og listrænan stjórnanda Gogoyoko, prýða veggina og í eldhúsinu er meira að segja að finna "fussball" spil. Augljóst er að sköpun og vinnugleði er í fyrirrúmi hjá þessu framsækna fyrirtæki sem var stofnað í lok örlagaársins 2007 af tónlistarmönnunum Hauki Magnússyni og Pétri Einarssyni. Tilgangur þeirra félaga var að búa til nýjan vettvang fyrir tónlistarmenn til að koma tónlist sinni á framfæri á alþjóðavettvangi en að hafa jafnframt tekjur af verkum sínum sem hefur reynst fólki innan geirans þrautaganga.

„Munurinn á Gogoyoko og öðrum miðlum eins og til dæmis tónlist.is er sá að það kostar ekkert að hlusta," útskýrir Kristján. „Það er hægt að hlusta á alla tónlistina sem er inni á gogoyoko endalaust og algerlega frítt. Þarna eru ekki bútar af lögum heldur heil lög og heilar plötur til að hlusta á án endurgjalds."

Pétur bætir við að fólk sé stundum tortryggið vegna þess hve mikið af ólöglegum slíkum þjónustum eru á netinu. „Það verður þó að hafa hugfast að það eru um 400 löglegar tónlistarveitur á netinu. Það eru auglýsendur okkar sem greiða fyrir það að fólk getur hlustað á tónlist ókeypis á Gogoyoko, alveg eins og auglýsendur greiða fyrir efnið í Fréttablaðinu. Þú þarft ekki að borga neina áskrift hjá okkur eins og hjá mörgum öðrum miðlum til að fá þessa þjónustu."

Tónlistarfólk þarf sjálft ekki að borga neitt fyrir að setja tónlist sína inn á Gogoyoko né tekur Gogoyoko hluta af sölu ágóða þeirra. „Allur ágóði af tónlistinni sem þeir selja hjá okkur fer til þeirra beint," segir Kristján.

„Það er bara ekki sanngjarnt að taka hluta af ágóðanum ef það er tónlistarmaðurinn sem vinnur alla vinnuna, eini kostnaðurinn fyrir tónlistarfólk er smástund til að búa til sinn eigin "prófíl" og hlaða tónlistinni sinni inn. Við leggjum mikið upp úr samstarfi við góðgerðarstarfsemi og ef tónlistarmenn vilja gefa hluta af tekjum sínum til samtaka sem við erum í samstarfi við, eins og til dæmis Unicef, þá geta þeir það, en þeir þurfa þess alls ekki."



Ný tónlistarbúð opnuð
Breytingarnar á Gogoyoko: Hver tónlistarstefna fær sitt heimasvæði. Plötuútgáfur fá sérsíður fyrir sínar útgáfur. Leitin verður betrumbætt svo um munar. Auglýsingasala hefst.

„Auk ókeypis tónlistarstreymis á Gogoyoko er svo tónlistarbúð þar sem þú getur keypt þér allt þetta gífurlega úrval af tónlist að vild. Þú borgar fyrir tónlistina ef þú vilt verðlauna listamanninn fyrir góða upplifun og vilt eiga hana í tölvunni, setja hana í símann eða á MP3-spilarann," segir Kristján.

Stóru fréttirnar eru einmitt þær að nú um helgina verður opnuð splunkuný tónlistarbúð á netinu í stað þeirrar sem verið hefur uppi undanfarið ár.

„Búðin sem við vorum með í gangi var dálítið eins og vöruskemma eða vörulisti en nú er sumsé komin upp alvöru búð. Í upphafi lögðum við höfuðáherslu á að gera skráningarferli og upplifun tónlistarmannanna sjálfra sem besta. Því hefur upplifun notenda sem eru að leita sér að tónlist á Gogoyoko ekki verið megináhersla í þróun vefsins fyrr en nú. Á Gogoyoko geta sumsé tónlistarunnendur nú fengið sömu upplifun og í góðri tónlistarverslun."

Pétur bætir við að að þetta sé í raun mjög lógísk forgangsröðun. „Við viljum að fólk læri að elska gogoyoko vegna tónlistarinnar sem þar er að finna, fyrst og fremst. Því vildum við tryggja að sem flestir tónlistarmenn myndu vilja setja tónlistina sina inn hjá okkur með því að gera vel við þá í byrjun. Ef við fáum ekki tónlistina inn þá kemur fólk auðvitað ekki inn á síðuna okkar."

En hver er megin breytingin á tónlistarbúðinni?

„Breytingin fyrir notendur er fyrst og fremst sú að þarna er komin búðarupplifun. Við erum með gríðarlega öfluga leit og sérstök kynningarsvæði fyrir hvern geira tónlistar," útskýrir Kristján.

„Til dæmis er kominn búðarfrontur fyrir djass, fyrir klassíska tónlist, popptónlist, rokk og svo framvegis. Við erum með yfir tuttugu ólíka geira og innan hvers geira er svo vinsældalisti þar sem hlustendur geta skoðað hvað er vinsælast hverju sinni. Svo erum við að kynna tónlist sem er á góðu eða lækkuðu verði, og önnur nýjung er það sem við köllum "Golden Oldies" þar sem þú finnur gamla tónlist sem er allt frá djassi upp í Elvis Presley og jafnvel Cliff Richard."

Lögðum mikið í undirbúninginn

Annar skemmtilegur kostur fyrir tónlistarfólk er að það getur valið markhóp sinn eftir löndum. „Hver tónlistarmaður getur ákveðið hvert hann vill beina sjónum sínum og hvar hann vill selja tónlistina sína. Þetta er liður í því prinsippi okkar að veita tónlistarfólki fullkomna stjórn."

Önnur nýjung er einnig að hægt er að leita eftir plötufyrirtækjum og plötufyrirtæki verða með eigin síður innan Gogoyoko þeim að kostnaðarlausu. „Fólk elskar líka tónlist sem er gefin út af plötufyrirtækjum, við viljum líka gera vel við þau og hafa tónlist frá hefðbundnum útgáfum þarna inni."

Gogoyoko er nú opið notendum í öllum norrænu löndunum: Íslandi, Grænlandi, Finnlandi, Færeyjum, Noregi, Svíþjóð og Danmörku en í haust stefnir fyrirtækið á frekari sókn og opnar fyrir notendum í Bretlandi og Kanada hinn fyrsta september.

„Ástæða þess að við opnum þetta hægt og sígandi er sú að við viljum gera hlutina vel og vandlega frá byrjun og leggja mikið í undirbúninginn."

Markaðurinn er harður en liðsmenn Gogoyoko eru bjartsýnir. „Við höfum fulla trú á því sem við erum að gera og erum fyrirtæki með prinsippin í lagi. Fólk er alltaf að velta fyrir sér hver framtíð tónlistar verður með tilkomu netsins. Svarið okkar er að framtíðin er Gogoyoko."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.