Innlent

Vinnumálastofnun auglýsir eftir stærra húsnæði

Erla Hlynsdóttir skrifar
Vonir standa til að umfang starfsemi Vinnumálastofnunar við umsýslu vegna atvinnuleysistrygginga minnki að fimm árum liðnum
Vonir standa til að umfang starfsemi Vinnumálastofnunar við umsýslu vegna atvinnuleysistrygginga minnki að fimm árum liðnum
„Ríkissjóður óskar eftir að taka á leigu skrifstofuhúsnæði fyrir Vinnumálastofnun Miðað er við að húsnæðið verði tekið á leigu til 10 ára."

Þannig hefst auglýsing sem birt er á útboðsvef Ríkiskaupa.

Þar segir ennfremur að gerð sé krafa um góða staðsetningu miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu, gott aðgengi og næg bílastæði. Æskilegur afhendingartími er 15 mars. 2011.

Aðalskrifstofa Vinnumálastofnunar er nú í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu í Reykjavík. Þar er einnig til húsa félags- og tryggingamálaráðuneytið en ráðgert er að heilbrigðisráðuneytið verði þar með aðsetur þegar Vinnumálastofnun flytur, en Guðbjartur Hannesson er yfir þessum velferðarráðuneytum.

Þá stendur til að öll starfsemi Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu verði sameinuð í hinu nýja húsnæði.

Í auglýsingunni segir að húsrýmisþörf Vinnumálastofnunar fyrstu fimm árin sé áætluð 1920 fermetrar en að þeim tíma liðnum áskilji stofnunin sér rétt til að minnka stærð hins leigða húsnæðis um minnst 300 til 500 fermetra.

Undir Vinnumálastofnun heyrir umsýsla vegna atvinnuleysistrygginga og eftir því sem fréttastofa kemst næsta standa vonir til að eftir fimm ár minnki umfang þeirrar starfsemi.

Frekari upplýsingar um þær kröfur sem húsnæðið verður að uppfylla verða aðgengilegar á heimasíðu Ríkiskaupa mánudaginn 27. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×