Innlent

Brýna fyrir börnum að fara ekki upp í bíl með ókunnugum

Erla Hlynsdóttir skrifar
Mynd úr safni
Forsvarsmenn Kringlumýrar, frístundamiðstöðvar Laugardals og Háaleitis, hafa sent foreldrum bréf þar sem þeir eru hvattir til að brýna fyrir börnum sínum að fara ekki upp í bíla hjá ókunnugum eða eiga nokkur samskipti við þá. „Tvö slík tilvik hafa komið upp í okkar hverfi í haust," segir í bréfinu en seinna atvikið átti sér stað á föstudag.

Haraldur Sigurðsson, forstöðumaður frístundamiðstöðvarinnar, segir í samtali við Vísi að með bréfinu sé aðeins verið að árétta varnaðarorð til foreldra. Í umrædd skipti hafi börnin brugðist hárrétt við og labbað í burtu þegar ókunnuga bar að garði.

„Starfsfólk er meðvitað um þessi tilvik og er skylt að hringja umsvifalaust á lögregluna verði þau var við grunsamlegar manna- eða bílferðir í nágrenni við frístundaheimili okkar," segir í bréfinu.

Þegar blaðamaður hafði samband við lögreglu fengust þær upplýsingar að þar væri skráð atvik frá því á föstudag þar sem bíl var ekið upp á gangstétt við Langholtsveg þar sem barn var á gangi. Barnið varð óttaslegið og fór beinustu leið heim til sín án þess að ökumaður hefði komið að máli við það. Að sögn lögreglumanns var barnið hrætt um að þarna hefði verið „perri" á ferð. Foreldrar hringdu í lögreglu og skýrsla var tekin af barninu. Þar sem engin samskipti áttu sér stað milli ökumanns og barns getur lögreglan ekkert sagt til um hvað manninum gekk til með að leggja uppi á gangstétt.

Að sögn Haralds er nokkuð síðan fyrra tilvikið kom upp en á þessum tímapunkti var ákveðið að minna foreldra á að tala við börn sín um hvernig skuli bregðast við þegar ókunnugir gefa sig á tal við þau.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×