Innlent

Vilja ekki unglingaskemmtanir á vínveitingastöðum

Heimili og skóli - landssamtök foreldra taka undir ályktun Foreldraráðs Hafnarfjarðar og hvetja alla þá aðila sem koma að skipulagi skemmtana fyrir ungmenni til að tryggja að skemmtistaðir með vínveitingarleyfi séu ekki notaðir fyrir ungmennasamkomur. Í yfirlýsingu segir að stjórn samtakanna telji að það sæmi ekki að hafa unglingasamkomur á stöðum sem eru innréttaðir með börum til vínveitinga og eru jafnvel með auglýsingar um áfengi hangandi uppi á veggjum.

„Slíkir staðir eru ætlaðir fullorðnu fólki 20 ára og eldri og geta ekki talist heppilegir samkomustaðir ungmenna. Nóg er til af íþróttahúsnæði, félagsheimilum og öðru húsnæði sem hentar mun betur undir ungmennasamkomur," segir ennfremur.

Þá skorar stjórnin á sveitarfélög að móta skýra stefnu um málið og vera öðrum til fyrirmyndar og eftirbreytni. „Heimili og skóli fagna áskorun Foreldraráðs Hafnarfjarðar til Hafnarjarðarbæjar um að móta sér skýra stefnu í þessu máli og vera fyrirmynd annarra sveitarfélaga."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×