Lífið

María Sigrún Hilmarsdóttir: Þetta er einstakur maður

Reynir Pétur Ingvarsson og María Sigrún Hilmarsdóttir skemmta sér vel við gerð heimildarmyndar um göngu Reynis Péturs í kringum landið.
Reynir Pétur Ingvarsson og María Sigrún Hilmarsdóttir skemmta sér vel við gerð heimildarmyndar um göngu Reynis Péturs í kringum landið.
Fréttakonan María Sigrún Hilmarsdóttir er um þessar mundir að vinna að heimildarmynd um hinn landskunna göngugarp Reyni Pétur Ingvarsson, en aldarfjórðungur er liðinn frá því að hann gekk svo eftirminnilega hringinn í kring um landið.

„Ég hafði gengið með hugmyndina að myndinni í svolítinn tíma en vildi bíða eftir réttum tímapunkti til að gera hana. Reynir Pétur er einstakur maður og það muna flestir eftir þessum tíma enda fylgdi þjóðin honum vel eftir á göngunni," segir María Sigrún. Ákveðið var að ráðast í gerð myndarinnar í sumar þar sem aldarfjórðungur er liðinn frá því Reynir Pétur gekk hringinn, auk þess sem Sólheimar fagna áttatíu ára starfsafmæli sínu í ár.

María Sigrún segir Reyni Pétur afskaplega jákvæðan mann með yndislega sýn á lífið sem hún telur að eigi erindi við landsmenn í dag. „Þar sem ég vinn á RÚV hef ég greiðan aðgang að öllu efninu sem tengist göngu Reynis Péturs og fannst því kjörið að gramsa svolítið í þeirri gullkistu og tvinna saman við efnið sem við erum að taka upp núna," segir hún. Tökum lýkur í október og verður myndin að frumsýnd í Sjónvarpinu síðar í vetur. Myndina vinnur María Sigrún í samstarfi við tökumanninn Guðmund Bergkvist, en þau gerðu saman heimildarmyndina Börn til sölu, sem fjallaði um mansal á stúlkubörnum í Kambódíu.

María og Guðmundur voru boðin í mat til Reynis Péturs og unnustu hans að loknum einum tökudeginum. María segir gerð myndarinnar hafa verið mjög ánægjulega. „Ég kem alltaf endurnærð heim frá Sólheimum," segir hún.

Fréttablaðið náði einnig tali af Reyni Pétri og spurði hann út í verkefnið og segist hann mjög spenntur fyrir verkefninu. „Auðvitað líst manni vel á þetta. Ég kom meira að segja með tillögu að nafngiftinni; Reynir Pétur, gengur betur, ég skaut þessu að Maríu og hún sagði að það gæti vel verið að þetta yrði tekið til greina," segir hann og hlær. Fréttakonunni lýsir hann sem einstaklega huggulegri og vingjarnlegri stúlku. Hann segist jafnframt vera mjög ánægður með að myndin af þeim í Fréttablaðinu verði í lit.

Reynir Pétur hefur verið í sambúð með Hanný Maríu síðastliðin 26 ár og að hans sögn er unnustan engu minna spennt fyrir verkefninu en hann. „Það sem hún er ánægðust með er að hún fær að smella sér með inn í myndina, en það er auðvitað ég sem á senuna," segir göngugarpurinn að lokum og hlær dátt.

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.