Erlent

Julian Assange neyðist til að skrifa bók

Julian Assange fær eina milljón punda fyrir samninginn.
Julian Assange fær eina milljón punda fyrir samninginn. Mynd/AP
Julian Assange, forsvarsmaður uppljóstrunarsíðunnar Wikileaks, hefur skrifað undir samning um útgáfu bókar sem færir honum eina milljóna punda eða jafnvirði tæplega 117 milljóna íslenskra króna.

Í viðtali við breska dagblaðið Sunday Times segist Assange ekki hafa langað til að skrifa bók á þessum tímapunkti en að hann hafi neyðst til þess. Þá fjármuni sem Assange fær fyrir útgáfusamninginn hyggst hann nota til að greiða lögfræðingum sínum vegna málaferla í Bretlandi og Svíþjóð. Það er bókafélagið Random House sem gefur bókina út en hún kemur væntanlega út á næsta ári. Þá er einnig von á bókum frá fyrrverandi félagum Assange hjá Wikileaks.

Assange stofnaði Wikileaks árið 2006 sem vettvang fyrir uppljóstrara sem vilja koma á framfæri leynigögnum. Honum var sleppt úr fangelsi í Bretlandi um miðjan mánuðinn en Assange hafði þá verið í fangelsi í rúma viku vegna framsalskröfu frá Svíþjóð, þar sem hann er sakaður um kynferðisbrot gegn tveimur konum. Assange óttast að ef hann verði framseldur til Svíþjóðar verði það í raun aðeins millilending á leið til Bandaríkjanna en þar hafa stjórnmálamenn lagt til að hann yrði ráðinn af dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×