Innlent

Hundruð manna hafa látist

Kristjana Þorláksdóttir við störf á sjúkrahúsinu í Carrefour. Mynd/Rauði krossinn.
Kristjana Þorláksdóttir við störf á sjúkrahúsinu í Carrefour. Mynd/Rauði krossinn.

Þrír íslenskir sendifulltrúar Rauða krossins á Haítí taka nú þátt í að berjast gegn kólerufaraldri sem stöðugt verður skæðari. Sjúkdómurinn hefur náð inn til höfuðborgarinnar Port-au-Prince og er eins og tifandi tímasprengja í flóttamannabúðum þar sem hundruð þúsunda manna hafast við.

Birna Halldórsdóttir, rekstrarstjóri tjaldsjúkrahúss Rauða krossins í Carrefour, segir í tilkynningu frá Rauða krossinum að um tíu þúsund manns hafi veikst og um 643 dauðsföll megi rekja til kóleru. „En mörg tilfelli hafa ekki verið skráð og sumir segja að það sé hægt að tvöfalda þessar tölur,“ bætir hún við.

Með Birnu í Carrefour eru hjúkrunarfræðingarnir Kristjana Þorláksdóttir og Ragnheiður Þórisdóttir, sem fór upphaflega til Haítí í lok maí. Alls 27 fulltrúar Rauða kross Íslands hafa farið til Haítí frá því að jarðskjálftinn reið þar yfir í byrjun árs.

Kólera veldur miklum niðurgangi sem leiðir til þess að líkaminn ofþornar, en Rauði krossinn hefur einnig verið að vinna að forvörnum, sem felast aðallega í bættu hreinlæti.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×