Innlent

Samfélagsáhrif niðurskurðar metin

Oddný G. Harðardóttir
Oddný G. Harðardóttir
Fjárlaganefnd Alþingis hefur falið Byggðastofnun að meta samfélagslegar afleiðingar niðurskurðar opinberrar þjónustu í kjölfar efnahagshrunsins.

Skoða á hvaða áhrif fjárlög áranna 2009 til 2011 hafa haft. Í þeim birtist efnahagsstefna stjórnvalda.

Oddný G. Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar, segir þetta til marks um ný og vönduð vinnubrögð. „Það þarf að meta þessi samfélagslegu áhrif og niðurstöðurnar verða hafðar til hliðsjónar við gerð fjárlagafrumvarpsins 2012."

Oddný segir þetta ekki til marks um að fjárlaganefnd telji að niðurskurðurinn hafi til þessa verið handahófskenndur og framkvæmdur án þess að áhrif hans hafi legið ljós fyrir. „Það er ekki hægt að meta þetta fyrr en komin er reynsla."

Alþjóðlega viðurkenndar mælistikur við kostnaðar- og nytjagreiningu verða notaðar. Liggja kostnaður, tekjur, mannauður, atvinna, menntun, samgöngur og fleira til grundvallar. Jafnframt er tekið tillit til byggða- og kynjasjónarmiða svo og stofnanaþróunar.

Byggðastofnun hefur áður tekið að sér að skoða áhrif væntanlegs niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu á einstök landsvæði.- bþs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×