Innlent

Óttast enskuna í háskólum

Níutíu prósent af námsefni á háskólastigi hérlendis eru á ensku.Fréttablaðið / stefán
Níutíu prósent af námsefni á háskólastigi hérlendis eru á ensku.Fréttablaðið / stefán
Íslensk málnefnd hefur áhyggjur af stöðu íslenskunnar í háskólasamfélaginu og vill að íslenska verði gerð að opinberu tungumáli í Háskóla Íslands. Þetta kemur fram í ályktun nefndarinnar sem samþykkt var um mánaðamót.

Fram kemur í ályktuninni að samkvæmt rannsóknum séu um og yfir níutíu prósent af öllu námsefni á háskólastigi hérlendis á ensku. Þá hafi um 80 prósent af doktorsritgerðum við Háskóla Íslands árin 2000 til 2009 verið á ensku.

„Ef þessi þróun heldur áfram næstu áratugi og námskeiðum og heilum námsbrautum á ensku fjölgar blasir við að verulega mun þá þrengt að íslenskri tungu í háskólasamfélaginu á Íslandi. Svo gæti farið að íslenska yrði ekki lengur gjaldgeng í íslenskum háskólum og yrði að víkja þar fyrir ensku,“ segir í ályktuninni.

Íslensk málnefnd telur mikilvægt að spyrna fótum við þessari þróun, þótt óraunhæft og óskynsamlegt væri að ryðja ensku eða öðrum erlendum tungumálum úr háskólasamfélaginu.- sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×