Innlent

Bókaþjóðin orðin nettengd

Rafbókin á eftir að breyta neyslumynstrinu, að mati Jóns Axels. Fréttablaðið/GVA
Rafbókin á eftir að breyta neyslumynstrinu, að mati Jóns Axels. Fréttablaðið/GVA
Edda útgáfa hefur fyrst íslenskra útgáfna gert samning við Apple um dreifingu á rafrænum bókum. Eigendur iPad og iPhone geta nú nálgast fyrstu bókina á íslensku á rafrænu formi. Nýtist öðrum forlögum til að koma bókum sínum á netið.

„Við munum alltaf vera bókaþjóð, það er bara spurning í hvaða formi það verður," segir Jón Axel Ólafsson, forstjóri Eddu útgáfu sem hefur stigið nýtt skref í útgáfu bóka á rafrænu formi hér á landi, með dreifingarsamningi við Apple. Eigendur iPad og iPhone geta því keypt íslenskar bækur í rafrænu formi frá Eddu útgáfu.

Stór skref voru stigin í rafvæðingu á bókamarkaði í ár þegar Amazon setti Kindle-lestölvuna á markað og Apple iPad spjaldtölvuna.

Jón Axel segir íslenska útgefendur ekki í aðstöðu til að gera dreifingarsamninga við Amazon í Kindle en Eddu hafi tekist að gera samning við Apple vegna tengsla við Disney.

„Disney er að undirbúa útgáfu á sínu efni í Evrópu núna og þetta er liður í því," segir hann.

Fyrsta íslenska rafræna bókin sem fáanleg er á iBookstore frá Apple er þegar komin út en fleiri bækur koma út á næstu dögum og vikum.

„Við erum sem stendur að vinna í því að taka allt efni sem við eigum og breyta því fyrir þetta format. Bangsímon-útgáfan eins og hún leggur sig verður þarna, Stóra Disney matreiðslubókin og fleira."

Spurður um möguleika rafbóka á Íslandi segist Jón telja þá jafn mikla og hverrar annarrar útgáfu.

„Þetta á eftir að auka neysluna en breyta neyslumynstrinu. Bókin fer ekki neitt en það eina sem breytist er að í staðinn fyrir að taka eina bók með í ferðalagið tökum við hundrað eða tvö hundruð bækur."

Dreifingarsamningur Eddu við Apple gæti einnig þýtt að nú styttist í að bækur annarra forlaga verði fáanlegar á rafrænu formi á íslensku.

„Við erum í rauninni bara gátt að þessu dreifingarkerfi. Önnur forlög eða einstaklingar geta því komist í dreifingu á iBookstore í gegnum okkur. Það þýðir að kannski verður bráðum hægt að kaupa bækur eftir Arnald Indriðason á netinu á íslensku en það er nú þegar hægt að kaupa bækur hans á ensku í gegnum Harper-Collins."

bergsteinn@frettabladid.is



Auglýsing fyrir fyrstu rafbókina á íslensku.
Fyrsta rafbókin á íslensku

Fyrsta rafbókin á íslensku á vegum Eddu útgáfu er þegar fáanleg á iBookstore. Það er þýðing Sigurðar A. Magnússonar á bókinni Zen og listin að viðhalda vélhjólum, eftir Róbert Pirsig.

"Þeir feðgar, Sigurður A. Magnússon og sonur hans, Sigurður Páll, komu með þessa bók til okkar á sínum tíma og við ákváðum að vinna þetta verkefni með þeim af fullum krafti," segir Jón Axel. "Við sáum fljótt að þetta væri merkileg bók og í snilldarþýðingu Sigurðar, og kjörin til að marka upphaf rafbókaútgáfu á íslensku."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×