Erlent

Nazistar undirbjuggu sprengjuárás á New York

Óli Tynes skrifar
Eldflaugavélin var mikið tækniundur.
Eldflaugavélin var mikið tækniundur. Mynd/History Channel

Árið 1944 voru Þjóðverjar við það að tapa stríðinu. Engu að síður var í fullum gangi undirbúningur undir sprengjuárás á Bandaríkin. Til þess átti að nota nýja flugvélategund sem á þeim tíma hefur verið hreint tækniundur.

Hún var tæpir fjörutíu metrar að lengd sem er vel rúmlega hálfur turninn á Hallgrímskirkju. Vélin var knúin eldflaugahreyflum og bar 90 tonn af eldsneyti.

Það átti að að setja hana á sleða og skjóta henni upp af gríðarlöngum rampi eins og V-1 flugskeytunum sem skotið var á Bretland.

Til þess að knýja sleðann átti að nota fimmtán eldflaugahreyfla af V-2 eldflaugum.

Það nægði til þess að koma sleðanum í tæplega tuttuguþúsund kílómetra hraða.

Hálfgert geimfar

Við endann á rampinum átti vélin að losna frá sleðanum og ræsta eigin mótora. Hún átti svo að klifra með sextíu gráðu halla upp í lága braut um jörðu eða 200 kílómetra hæð. Þetta var því eiginlega hálfgert geimfar.

Á þessari braut átti hún svo að svífa til Bandaríkjanna á sexþúsund kílómetra hraða. Þar átti að sleppa einni sprengju í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð frá New York sem var skotmarkið. Svo yrði vélinni snúið heim aftur.

Í sprengjunni átti að vera geislavirkur sandur. Ætlunin var því ekki að eyðileggja sem mest, heldur mynda þrýsting til þess að fá fram vopnahlé.

Stríðinu lauk þó áður en tókst að smíða þessa framtíðarsýn Þjóðverja. Einn þeirra sem unnu að þessu var Werner von Braun sem síðar stýrði eldflaugaþróun Bandaríkjanna. (Heimild: History Channel)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×