Innlent

Klemmdu þjóf í glugganum: „Það er eitthvað í gangi hérna“

Eldri hjón í bökkunum í Breiðholti sem klófestu innbrotsþjóf á heimili sínu í dag. Húsmóðirin kom í veg fyrir að hann kæmist út um dyr hússins og heimilisfaðirinn klemmdi hann í glugga þar sem hann fékk að engjast þar til lögregla sótti hann.

„Þetta var frekar óþægilegt, við skuppum hérna út í búð, hjónin, og höfum sennilega verið þar í korter til tuttugu mínútur. Þegar við komum til baka tökum við eftir því að gardínan í eldhúsglugganum er frá og jólaljósin liggja á borðinu. Við segjum við hvort annað: - Það er eitthvað í gangi hérna,"" segir Halldór Friðriksson.

Inn í svefnherbergi hjónanna var maður sem búinn var að fylla íþróttatösku húsmóðurinnar af verðmætum. Hjónin létu sér þó ekki bregða heldur vildu verja heimili sitt og eigur.

„Ég þríf í drenginn og ætla að gera eitthvað, sem var náttúrulega barnaskapur í mér fullorðnum manni að ætla að fara slást við ungan stæltan pilt. Hann hendir mér líka til en fer ekki upp stigann því konan stendur þar. Hann hleypur svo inn í herbergi og ætlar að komast út um gluggan þar. Það gekk samt eitthvað treglega hjá honum. Á meðan hann reynir það hringir konan í lögregluna þar sem hún stendur fyrir utan gluggann en ég loka ég hurðinni á herberginu sem þjófurinn var í og fer út. Þá er hann kominn hálfur út um gluggann en ég held glugganum föstum. Hann klemmir sig á hendinni og setur fótinn í til að reyna létta á henna en verður þar með algjörlega fastur," segir Halldór.

Og í glugganum fékk maðurinn að engjast og orga þar til lögregla kom sótti hann um tíu mínútum síðar. Halldór þurfti að beita töluverðu afli við að halda manninum klemmdum í glugganum og var enn djúpt far í lófa hans eftir átökin um klukkan hálf fimm í dag þótt innbrotið hefði átt sér stað um þremur klukkustundum fyrr um daginn. Sem betur fer liðu þó ekki nema um tíu mínútur frá því hjónin hringdu og kölluðu eftir hjálp og þar til lögreglan mætti á staðinn til að hirða þjófinn úr gluggaklemmunni.

Lögregla segir manninn vera síbrotamann. Hann var í annarlegu ástandi og situr nú í fangageymslu. Búist er við því að hann verði yfirheyrður í fyrramálið þegar að víman er runnin af honum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×