Erlent

Fækkun kjarnaodda sett í forgang

Forsetarnir Barack Obama og Dimitry Medvedev náðu vel saman á fundinum. fréttablaðið/AP
Forsetarnir Barack Obama og Dimitry Medvedev náðu vel saman á fundinum. fréttablaðið/AP
 Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fullvissaði Dmitry Medvedev, forseta Rússland, í gær á fundi þeirra í Japan um að það væri forgangsmál stjórnar hans að fá bandarísku öldungadeildina til að samþykkja kjarnorkuvopnasamninginn START.

„Ég lagði áherslu á vilja minn til að klára START-samninginn,“ sagði Obama, sem var að ljúka tíu daga ferðalagi sínu um Asíu. Þar tók hann meðal annars þátt í leiðtogafundi G-20 ríkjanna sem fór fram í Suður-Kóreu. START-samningurinn snýst um að fækka kjarnaoddum úr 2.200 í 1.550 hjá hvorri þjóð um sig. Einnig felst í honum samkomulag um að þjóðirnar muni beita nýjum aðferðum við að rannsaka vopnabúr hvor annarrar. Samningurinn hefur mætt mótstöðu, sérstaklega hjá repúblikönum sem eru í minnihluta í öldungadeildinni.

Obama og Medveded náðu vel saman á fundi sínum. Obama þakkaði Rússum fyrir samstarfið varðandi stríðið í Afganistan og þátttöku þeirra í málefnum Mið-Austurlanda og Súdan. „Það var mjög ánægjulegt fyrir mig að eiga þennan fund og ræða um alls konar málefni við kollega minn. Samstarf okkar er mjög gott og við skiljum hvorn annan mjög vel,“ sagði Medvedev.

Ferðalag Obama til Asíu var það lengsta sem hann hefur farið í síðan hann varð forseti. Áður en hann lagði af stað heim á leið notað hann tækifærið og skoðaði þrettán metra háa styttu af Búdda í Japan sem var smíðuð árið 1252. Hann var sex ára þegar hann sá hana síðast.

- fb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×