Erlent

Bandaríkjamenn njósnuðu kerfisbundið um Norðmenn í Osló

Bandaríkjamenn hafa á kerfisbundinn hátt njósnað um fleiri hundruð Norðmenn í Osló á undanförnum tíu árum. Þetta kom fram í frétt á sjónvarpsstöðinni TV2 í gærkvöldi.

Njósnahópur 15 til 20 manna stóð að þessu 24 tíma á sólarhing en hópurinn gengur undir nafninu Surveillance Detection Unit og hafði aðsetur á leynilegum skrifstofum í byggingu sem stendur við hlið bandaríska sendiráðsins í borginni. Nöfn grunsamlegra Norðmanna voru afhent öryggisdeild sendiráðsins.

Talsmaður bandaríska sendiherrans í Osló segir að öll starfsemi þeirra í Noregi sé með vitund og vilja norskra stjórnvalda.

Þessi starfsemi hefur hinsvegar komið Odd Ejner Dörum, sem var dómsmálaráðherra þegar njósnastarfseminni var komið á laggirnar, í opna skjöldu. Hann segir að Bandaríkjamenn hefðu átt að upplýsa hann um þessar njósnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×