Innlent

Telur herflug og björgunarflug ekki það sama

Borgarstjóri segir að ef þjóðhöfðingjar þurfi að sækja Ísland heim í herflugvélum geti þeir lent í Keflavík.fréttablaðið/vilhelm
Borgarstjóri segir að ef þjóðhöfðingjar þurfi að sækja Ísland heim í herflugvélum geti þeir lent í Keflavík.fréttablaðið/vilhelm
Jóni Gnarr borgarstjóra þykir óeðlilegt að herflug og björgunarflug sé skilgreint í sama hóp varðandi lendingarleyfi hernaðarflugvéla á Reykjavíkurflugvelli.

„Þarna er um gjörólíka hluti að ræða. Þetta þarf að vera skýrt í lögum,“ segir Jón. „Þessi áskorun er tilmæli frá borgarráði, sem lýsa vilja okkar. Við leggjumst að sjálfsögðu ekki gegn því að flugvélar og þyrlur í björgunarflugi lendi á Reykjavíkurflugvelli þegar þörf er á.“

Borgarráð skoraði einróma á utanríkisráðuneyti og flugmálayfirvöld að beita sér fyrir því að umferð herflugvéla um Reykjavíkurflugvöll verði stöðvuð. Verði tillagan samþykkt þýðir það meðal annars að björgunarþyrlur danska hersins fengju ekki lendingarleyfi á vellinum. Þjóðhöfðingjar sem fljúga í herfylgd fengju heldur ekki leyfi til lendingar á Reykjavíkurflugvelli.

„Ef þjóðhöfðingi þarf að koma til Íslands og vill koma í herflugvél, þá getur hann lent á Keflavíkurflugvelli, keyrt þaðan til Reykjavíkur og í leiðinni séð meira af okkar fallega landi og stórbrotinni náttúru Suðurnesja,“ segir Jón spurður um það tiltekna mál.

„Reykjavíkurflugvöllur á að þjóna innanlandsflugi og það eru engar ástæður sem kalla á að herflugvélar lendi í Reykjavík, frekar en á alþjóðaflugvellinum í Keflavík, þar sem menn eru kannski betur í stakk búnir að bregðast við ef eitthvað fer úrskeiðis.“ Þá segist Jón persónulega ekki hafa neitt umburðarlyndi gagnvart hernaðar­umsvifum.- sv



Fleiri fréttir

Sjá meira


×