Innlent

Víða ófært

Færð á vegum landsins er æði misjöfn að því er fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni í morgun.

Á Suðvestur- og Suðurlandi eru allir helstu vegir auðir, þó eru hálkublettir á Mosfellsheiði og í kringum Vík.

Á Vesturlandi er ófært bæði á Bröttubrekku og Fróðárheiði. Þar er stórhríð og beðið með mokstur.

Á Holtavörðuheiði er búið að ryðja veginn en þar er stórhríð og lítið sem ekkert skyggni. Á Vestfjörðum er ófært bæði á Klettshálsi og Þröskuldum en fært er um Strandir.

Þungfært er í utanverðu Ísafjarðardjúpi.

Á Norðurlandi er víða hvasst og mikil ofankoma. Hins vegar er ófært yfir Þverárfjall og milli Sauðárkróks og Hofsóss og eins á Siglufjarðarvegi utan Fljóta.

Mikil ofankoma er við Eyjafjörð og mokstur gengur seint. Ófært er um Víkurskarð og Dalsmynni en þæfingur á öðrum leiðum.

Svipað er að segja um Þingeyjasýslur, þar er hríðarveður og víða þæfingsfærð. Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum.

Á Suðausturlandi er hálka úr Öræfum og vestur í Vík. Nánari upplýsingar má fá í síma Umferðarþjónustu Vegagerðarinnar 1777.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×