Erlent

G20 ríkin ósammála um aðgerðir

Barack Obama ásamt Lee Myung-bak, forseta Suður-Kóreu, og Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada. Fréttablaðið/AP
Barack Obama ásamt Lee Myung-bak, forseta Suður-Kóreu, og Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada. Fréttablaðið/AP
Ekki náðist sátt meðal leiðtoga G20 ríkjanna svokölluðu, tuttugu stærstu hagkerfa heims, um hugmyndir Bandaríkjamanna um að þrýsta á Kínverja að þeir sjái til þess að kínverska júanið styrkist.

Leiðtogar ríkjanna funduðu í gær og fyrradag í Seúl í Suður-Kóreu um stöðu alþjóðahagkerfisins. Umræður um ójafnvægi í alþjóðaviðskiptum voru áberandi en margir hafa áhyggjur af þeim gríðarlega mun sem er á viðskiptaafgangi ríkja á borð við Kína og Þýskalands og viðskiptahalla ríkja svo sem Bandaríkjanna.

Í sameiginlegri yfirlýsingu sem gefin var út í lok fundarins og bæði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og Hu Jintao, forseti Kína, skrifuðu undir, kom fram áheit um að berjast gegn verndarstefnu auk þess sem búa skyldi til viðmiðunarreglur um viðskiptajöfnuð ríkja. Væru þær reglur hugsaðar sem grundvöllur umræðna um ójafnvægi í alþjóðaviðskiptum.

Bandaríkjamenn höfðu í aðdraganda fundarins gagnrýnt kínversk stjórnvöld fyrir að halda gengi kínverska júansins óeðlilega lágu og þar með veita kínverskum fyrirtækjum samkeppnisforskot sem bandarísk fyrirtæki gætu ekki keppt við. Sterkara júan myndi þýða lækkun á viðskiptahalla Bandaríkjanna við Kína en spár benda til þess að hallinn verði 238 milljarðar dollara á þessu ári og hefur hann aldrei verið hærri. - mþl



Fleiri fréttir

Sjá meira


×