Innlent

Rof á þjóðarsátt um gjaldtöku

Runólfur Ólafsson
Runólfur Ólafsson
Runólfi Ólafssyni, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda, hugnast illa áform um að leggja vegtolla á umferð til að fjármagna framkvæmdir á Reykjanesbraut, Suðurlands- og Vesturlandsvegi.

„Það hefur verið þjóðarsátt um gjaldtöku til framkvæmda og hún hefur farið fram með sköttum á eldsneyti,“ segir Runólfur. Árlega séu 35 milljarðar innheimtir með þeim hætti en aðeins hluti fjárins renni til vegaframkvæmda.

Þá gagnrýnir hann að í hugmyndum um gjaldtöku sé ekki gert ráð fyrir valleiðum, það er leiðum sem ekki þurfi að greiða fyrir að aka um. Fólk muni því ekki eiga val.

Runólfur gagnrýnir líka framkvæmdirnar sem ráðast á í. „Í þessu árferði vil ég frekar að farið verði í minni viðhaldsverkefni. Það er hægt, og þarf, að auka öryggi víða með litlum tilkostnaði.“

Hann er líka andvígur tvöföldun Suðurlandsvegar. „Ég tel réttara að fara í 2+1 veg. Slíkir vegir eru öruggari en 2+2 vegir og við sjáum að sú leið hefur verið valin á fjölförnum vegum víða, til dæmis á Norðurlöndunum og í Bretlandi.“

Runólfur undrast líka þau áform, sem heimil eru með lögum frá í sumar, að stofna sérstakt félag utan um framkvæmdirnar. „Það stendur til að stofna Vegagerð ohf. til hliðar við Vegagerðina. Er þetta leið til að búa til ný störf?“ spyr hann.- bþs



Fleiri fréttir

Sjá meira


×