Innlent

Amast við táningi í húsi 50 ára og eldri

Skipalón 16-20 Fjölbýlishús ætlað fyrir fimmtíu ára og eldri. Maður einn keypti íbúð í húsinu og í henni býr barnsmóðir hans og sautján ára sonur þeirra.
Fréttablaðið/Daníel
Skipalón 16-20 Fjölbýlishús ætlað fyrir fimmtíu ára og eldri. Maður einn keypti íbúð í húsinu og í henni býr barnsmóðir hans og sautján ára sonur þeirra. Fréttablaðið/Daníel
Sautján ára piltur sem býr í Skipalóni í Hafnarfirði þarf að flytja út af heimili sínu þar sem blokkin sem hann býr í er eingöngu ætluð fyrir fimmtíu ára og eldri.

Faðir piltsins keypti íbúðina í apríl á þessu ári af Íslandsbanka sem eignast hafði fjölda óseldra íbúða í húsinu skömmu áður. Hann leigði sautján ára syni sínum íbúðina. Pilturinn flutti síðan inn ásamt 51 árs móður sinni.

Aðrir íbúar hússins hafa ekki sætt sig við veru piltsins í blokkinni og óskaði húsfélagið strax eftir því við föður hans að hann sæi til þess að drengurinn flytti út. Faðirinn vildi ekki verða við því og fór málið þá fyrir Kærunefnd húsamála.

Fyrir kærunefndinni vísaði húsfélagið til þess að kvöð væri á húseigninni um að þar mættu aðeins þeir búa sem væru fimmtíu ára og eldri. Faðirinn sagði að í kvöðum á eigninni væri talað um að húsið væri „sérstaklega ætlað“ fimmtíu ára og eldri en að þess væri hvergi getið að íbúarnir „skuli“ vera eldri en fimmtíu ára. Hann vísaði einnig til ákvæðis í stjórnarskrá um friðhelgi eignarréttarins.

Kærunefndin kemst að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að leigja eða lána íbúðir í húsinu til einstaklinga sem séu yngri en fimmtíu ára. Kvöðin um aldursmörkin hafi legið skýrt fyrir. „Tilgangur kvaða sem þessara er að tryggja sérstaklega næði og ákveðið sambýlismunstur og í því skyni undir­gangast kaupendur skerðingu á afnota- og ráðstöfunarrétti sínum,“ segir kærunefndin.

Álit kærunefndarinnar er ekki bindandi fyrir aðila málsins. Guðmundur Þór Bjarnason, lögmaður húsfélagsins, segir húsfélagið nú eiga þann möguleika að vísa í ákvæði fjöleignarhúsalaga. „Þar eru ákvæði um úrræði húsfélagsins við brotum umráðamanna eða eigenda. Þetta gæti hugsanlega flokkast undir slíkt brot og þá væri hægt að beita þeim ákvæðum. En síðan eru það einfaldlega almennir dómstólar,“ útskýrir Guðmundur.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins stefnir þó ekki í að deilan gangi lengra. Innan seilingar mun vera sátt sem gengur út á að mæðg­inin flytji úr íbúðinni. Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst er þetta mál það fyrsta sinnar tegundar sem upp hefur komið. gar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×