Innlent

Enn beðið eftir aðgerðarpakkanum

Enn er agerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimila beðið og óljóst hvort samkomulag náist um aðkomu lífeyrissjóðanna.

Fimm manna ráðherranefnd um aðgerðir vegna skuldavanda heimila og fyrirtækja undir foyrstu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra hefur fundað í allan morgun. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar hefur enn ekki tekist að semja við lífeyrissjóðina um þátt þeirra í væntanlegum aðgerðum. Fulltrúar sjóðanna funduðu með ráðherranefndinni í tvígang í gærdag og síðan með Fjármálaeftirlitinu um lagalega stöðu sjóðanna.

Forsætisráðherra sagði í fréttum okkar í gær að hún vonaðist til að menn næðu saman áður en dagurinn í dag væri liðinn. Jóhanna taldi í gær að heldur hefði miðast í samkomulagsátt við lífeyrissjóðina. Allir hefðu lagt sig fram um að ná niðurstöðu í málinu.

Arnar Sigurmundsson formaður Landssamtaka lífeyrissjóða segir að lífeyrissjóðirnir muni aldrei samþykkja almenna niðurfærslu skulda og þar með skuldir fólks hvort sem það ætti í vanda eða ekki. Sjóðirnir gætu aðeins fallist á að afskrifa skuldir sem metnar væru óinnheimtanlegar.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar hafa ráðherrarnir verið í sambandi við fulltrúa lífeyrissjóðanna og fleiri í morgun og er búist við formlegum fundi þegar líða tekur á daginn. En það skýrist væntanlega ekki fyrr en upp úr miðjum degi hvort takist að ná saman með lífeyrissjóðunum um aðgerðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×