Fótbolti

Pantaði Mourinho rauðu spjöldin hjá Ramos og Alonso?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Vefurinn
Samsæriskenningarnar voru fljótar að fara í loftið í gær eftir að spænsku landsliðsmennirnir Xabi Alonso og Sergio Ramos létu báðir reka sig útaf fyrir að tefja leikinn í 4-0 sigri Real Madrid á Ajax í Meistaradeildinni í gærkvöldi. Báðir voru á gulu spjaldi sem hefði kostað þá leikbann í 16 liða úrslitunum ef þeir hefði fengið spjald í lokaleiknum á móti Auxerre, leik sem skiptir Real engu máli.

Það er líka ekki hægt annað en brosa að því þessir reynslumiklu leikmenn tóku sér fáránlega langan tíma í að taka aukaspyrnu og markspyrnu. Það er hægt að sjá þessi tvö atvik með því að smella hér en það er erfitt að sjá annað fyrir sér að þeir hafi verið að sækja gula spjaldið og þar með rautt.

Það ætti að vera erfitt að sanna að skipunin hafi komið frá Mourinho, eða hvað? Á samsettu myndinni sem fylgir þessari frétt hafa menn klippt saman leiðina sem upplýsingarnar bárust Ramos. Þar sést Mourinho tala við varamarkvörðinn Jerzy Dudek með hendina fyrir munninn. Dudek talaði síðan við Iker Casillas sem síðan kom skilaðboðunum áfram til Ramos og lét hann taka fyrir sig markspyrnu.

Jose Mourinho hefur að sjálfsögðu neitað öllu og Casillas sagðist hafa verið að tala um meiðslin sín við Jerzy Dudek. Pólski varamarkvörðurinn var einmitt kominn fyrir aftan mark Real Madrid til þess að hita upp vegna meiðsla Casillas.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×