Erlent

Sendiráð ríkjanna verði samnýtt

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna Össur Skarphéðinsson, Jonas Gahr Støre frá Noregi, Lene Espersen frá Danmörku, Alexander Stubb frá Finnlandi og Carl Bildt frá Svíþjóð á blaðamannafundi á Grand Hotel í gær. fréttablaðið/GVA
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna Össur Skarphéðinsson, Jonas Gahr Støre frá Noregi, Lene Espersen frá Danmörku, Alexander Stubb frá Finnlandi og Carl Bildt frá Svíþjóð á blaðamannafundi á Grand Hotel í gær. fréttablaðið/GVA
Samstarf Norðurlandanna um utanríkisþjónustu verður aukið á næstunni, meðal annars með því að norrænu ríkin reki sameiginlegar sendiskrifstofur eða bjóði sendifulltrúum annarra Norðurlanda aðstöðu þar sem eitt eða fleiri þeirra hafa nú þegar sendiskrifstofu.

Einnig er hugmyndin sú að sendiráð norrænna landa geti veitt íbúum hinna norrænu landanna aðstoð í ríkjum þar sem þau eru ekki með sendifulltrúa.

Ákvörðun um þetta var tekin í gær á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Reykjavík. Þessar hugmyndir eru byggðar á skýrslu Thorvalds Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, um norræna samvinnu á sviði utanríkis- og öryggismála, sem hann afhenti utanríkisráðherrum Norðurlandanna í febrúar á síðasta ári.

Á blaðamannafundi ráðherranna í gær sagði Lene Espersen, utanríkisráðherra Danmerkur, að skýrsla Stoltenbergs væri mikilvægt framlag til umræðu um samstarf Norðurlandanna. Á henni yrði byggt í mörgum atriðum til framtíðar.

Á fundi sínum ræddu ráðherrarnir um samstarf Norðurlandanna á fleiri sviðum, meðal annars í öryggismálum.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×