Innlent

Tekið á mútugreiðslum og peningaþvætti

Ögmundur vill að Íslands gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu
Ögmundur vill að Íslands gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu mynd/ANTON
Allsherjarnefnd hefur afgreitt frumvarp um samning Sameinuðu þjóðanna um spillingu og leggur til að Alþingi samþykki frumvarpið sem felur í sér að breytingar á hegningarlögum.

Ögmundur Jónasson dómsmála- og mannréttindaráðherra mælti fyrir frumvarpinu í byrjun nóvember en í því er meðal annars kveðið á um refsinæmi þess að bjóða innlendum eða erlendum opinberum starfsmanni mútur. Einnig verður það refsivert samkvæmt frumvarpinu að þiggja mútur. Þá er þar tekið á peningaþvætti mútugreiðslna innan einkageirans sem og svokallaðra áhrifakaupa, en með því er átt við þegar áhrifamaður í tilteknu máli skiptir áhrifum sínum út fyrir ávinning frá aðila sem vill hafa áhrif á ákvarðanatökuna.

Allsherjarnefnd sendi frumvarpið til umsagnar og fengust jákvæðar umsagnir frá öllum þeim sem svöruðu; Fjármálaeftirlitinu, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Ríkisendurskoðun, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara og Viðskiptaráði Íslands.

Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu er frá 31. október 2003. Markmið samningsins er að stuðla að og styrkja ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu með skilvirkari og árangursríkari hætti, styðja alþjóðlega samvinnu og tæknilega aðstoð í tengslum , meðal annars við að endurheimta fjármuni og stuðla að ráðvendni, áreiðanleika og jafnframt að stuðla að góðri opinberri stjórnsýslu og umsýslu opinberra eigna

Á Alþingi tengist málið nýsamþykktum lögum sem ætlað er að skapa lagalega umgjörð um siðareglur fyrir ríkisstarfsmenn og ráðherra.

Mat allsherjarnefndar er að mikilvægt sé að tryggja alþjóðlega samvinnu í baráttu gegn spillingu og telur að með frumvarpinu og aðild að samningnum sé stigið mikilvægt skref til þess að koma í veg fyrir að þeir sem hafa brotið gegn ákvæðum samningsins erlendis geti komist hjá refsingu, til dæmis með því að dvelja hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×