Innlent

Námslok verða tryggð hjá nemendum

Menntamálaráðuneytið vinnur nú að endurskoðun á samningi við Hraðbraut en segir að framtíð nemenda sé tryggð, hvernig sem fer.
fréttablaðið/valli
Menntamálaráðuneytið vinnur nú að endurskoðun á samningi við Hraðbraut en segir að framtíð nemenda sé tryggð, hvernig sem fer. fréttablaðið/valli
Menntamálaráðuneytið endurskoðar nú framtíð samstarfsins við Menntaskólann Hraðbraut, en þjónustusamningur við skólann rennur út sumarið 2011.

Elías Jón Guðjónsson, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, segir engar ákvarðanir hafa verið teknar innan ráðuneytisins hvað varðar framtíð Hraðbrautar, en hagsmunir nemenda skólans séu hafðir í fyrirrúmi.

„Nemendur skólans munu hafa áframhaldandi tækifæri til þess að ljúka námi sínu,“ segir Elías. „Við erum að skoða samningana við Hraðbraut og endanlegar ákvarðanir munu liggja fyrir fljótlega eftir áramót.“

DV fjallaði um málið í blaði sínu í gær, þar sem fram kom að Hraðbraut myndi loka og ráðuneytið hefði nú þegar ákveðið að endurnýja ekki þjónustusamninginn. Elías segir DV fara með rangt mál, engar ákvarðanir hafi verið teknar í málinu.

Er þetta í ljósi skýrslu Ríkisendurskoðunar og menntamálanefndar Alþingis um fjármál skólans, þar sem fram kom að eigendur höfðu greitt sér út arð fyrir rekstur, þrátt fyrir að skólinn hafi aldrei skilað hagnaði. Þá hafi ráðuneytið ofgreitt eigendum skólans og ekki gert úttekt á fjölda nemenda. - sv



Fleiri fréttir

Sjá meira


×