Innlent

Sigurður Einars vildi klappstýrutilburði frá viðskiptaráðherra

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Karl Th. Birgisson og Björgvin G. Sigurðsson með bókina.
Karl Th. Birgisson og Björgvin G. Sigurðsson með bókina.

Sigurður Einarsson, þáverandi stjórnarformaður Kaupþings, sendi Björgvini G. Sigurðssyni, þáverandi viðskiptaráðherra, harkaleg SMS-skilaboð í byrjun júní 2008 fyrir að gagnrýna stöðu bankanna en ekki klappa hana upp.

Þetta kemur fram í nýrri bók Björgvins, Storminum. Björgvin segist hafa látið þau orð falla í viðtali við fréttamann Ríkisútvarpsins í byrjun júní 2008 sem hafi verið lögð út á þann veg að bankarnir gætu lent í vanda ef lánamarkaðir opnuðust ekki fljótlega. Björgvin segir að örfáum mínútum eftir að fréttin birtist hafi hann fengið „harkalegt sms-skeyti" frá Sigurði Einarssyni sem hann þekkti ekkert á þeim tímapunkti og hafði aðeins einu sinni talað við í síma vegna NIBC-málsins. Í skeytinu hafi Sigurður skammast yfir því að Björgvin væri að „gagnrýna stöðu bankanna en ekki klappa hana upp sem fagráðherra," eins og Björgvin lýsir því í bókinni. Björgvin hafi því ákveðið að hringja í Sigurð og benda honum á að hann hefði verið heldur kurteisari og blíðari á manninn í síðustu samskiptum þeirra.

Björvin segir í bókinni að Kaupþingsmenn hafi leikið alltof djarft, en komið hafði í ljós að þeir hafi ekki ráðið við yfirtökuna á hollenska NIBC bankanum. Ekkert varð sem kunnugt er úr þeim áformum þeirra.


Tengdar fréttir

Björgvin G. fór á pönktónleika eftir fund með Darling

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, tróð sér ekki í Lundúnaferðina á fund með Alistair Darling. Eftir fundinn með Darling fór Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, á tónleika með pönksveitinni Sex Pistols.

Myndir úr útgáfuteiti Björgvins

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, hélt útgáfuteiti á Umferðarmiðstöðinni í gær í tilefni af útkomu bókarinnar Stormurinn - Reynslusaga ráðherra. Bókin fjallar um ráðherraferil Björgvins og aðdragandann að hruni fjármálakerfisins á Íslandi. Fjöldi gesta var í útgáfuteitinu og Stefán Karlsson, ljósmyndari Fréttablaðsins, smellti af nokkrum myndum.

Björgvin G: Icesave í Hollandi ömurlegt hneyksli

Icesave-ævintýri Landsbankans í Hollandi er hneyksli og einn ömurlegasti hluti af starfsemi bankanna undir lokin segir Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra. Hann segist ekki hafa vitað af reikningunum í Hollandi fyrr en mörgum mánuðum eftir opnun þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×