Innlent

Hátt í 20 þúsund fá aðstoð við jólahaldið

Svörtustu spár hjálparsamtaka fyrir þessi jól virðast hafa ræst og aldrei hafa fleiri leitað aðstoðar. fréttablaðið/gva
Svörtustu spár hjálparsamtaka fyrir þessi jól virðast hafa ræst og aldrei hafa fleiri leitað aðstoðar. fréttablaðið/gva
Hátt í tuttugu þúsund Íslendingar fá aðstoð við að halda jól þetta árið, er mat talsmanna hjálparsamtaka. Sjö þúsund manns hið minnsta leituðu til samtakanna á síðustu dögum. Stór hópur þarf aðstoð en þiggur hana ekki, af ýmsum ástæðum.

Tvenn hjálparsamtök standa að matar- og gjafaúthlutun fyrir jólin. Annars vegar Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Rauði krossinn í Reykjavík og Hjálpræðisherinn sem standa að sameiginlegri úthlutun undir merkjum Jólaaðstoðar 2010. Hins vegar er það Fjölskylduhjálp Íslands.

Reynir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Jólaaðstoðar 2010, telur að 4.500 manns hafi leitað sér aðstoðar eins og áætlanir gerðu ráð fyrir og að hópurinn sé eins samsettur og í fyrra. Þá voru 43 prósent umsækjenda öryrkjar, tuttugu prósent voru á atvinnuleysisskrá en fimmtán prósent á vinnumarkaði. Sextíu prósent umsækjenda eru konur.

„Margar úthlutanir hjá okkur eru til einstæðinga en einnig eru margir sem hafa fjölskyldur að baki sér, þrjá eða fleiri,“ segir Reynir.

Fjölskyldusamsetningu metur Jólahjálpin út frá stærð matarpakkana sem er úthlutað.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, telur það ekki á rökum reist að einstaklingar stundi það í stórum stíl að leita aðstoðar á tveimur stöðum. Dæmi séu um slíkt en það sé í undantekningartilfellum. Nákvæm skráning útiloki jafnframt að fleiri en tveir frá sama heimili fái matarpakka. Þá sé erfitt eða útilokað fyrir einstakling sem ekki er í sárri þörf að fá úthlutun.

Til Fjölskylduhjálparinnar leituðu rúmlega 2.500 manns; um 1.900 á höfuðborgarsvæðinu og 300 á Akureyri og í Keflavík.

„Aukningin á þeim átta árum sem Fjölskylduhjálpin hefur starfað er mikil. Ég gæti trúað að það séu helmingi fleiri sem koma núna en fyrir hrun. Ég held, miðað við nýskráningar núna fyrir jólin, að árið 2011 verði það versta sem við höfum séð.“

Bæði Ásgerður og Reynir taka undir að töluverður fjöldi fólks þiggi ekki aðstoð þrátt fyrir að þörfin sé fyrir hendi. Fyrir því séu ýmsar persónulegar ástæður. „En þetta eru þung spor sem margir treysta sér ekki til að stíga,“ segir Reynir.

Meðalfjölskyldan á Íslandi er 2,7 einstaklingar að mati Hagstofunnar. Það viðmið bendir til að matargjafir nái til hátt í tuttugu þúsund manns. Það eru 7,5 prósent mannfjöldans á Íslandi.

svavar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×