Erlent

Lausn gegn tryggingu áfrýjað

Julian Assange á leið fyrir dómara í gær í lögreglubifreið.
nordicphotos/AFP
Julian Assange á leið fyrir dómara í gær í lögreglubifreið. nordicphotos/AFP

 Blaðamaðurinn John Pilger og kvikmynda­gerðarmennirnir Michael Moore, Ken Loach og Tariq Ali eru meðal þeirra sem lögðu í gær fram tryggingarfé svo leysa mætti Julian Assange, stofnanda Wikileaks, úr fangelsi í London. Samtals voru lagðar fram 43 milljónir króna, en dómstóllinn krefst 36 milljóna króna.

Saksóknari í Svíþjóð, sem vill fá Assange framseldan, ákvað hins vegar að áfrýja ákvörðun breska dómstólsins um að Assange yrði látinn laus gegn trygginu. Assange verður því áfram í fangelsinu meðan áfrýjunin er til meðferðar, sem væntanlega tekur tvo sólarhringa.

Fjölmargir stuðningsmenn Assange mættu í réttarsalinn í gær, þar á meðal móðir hans, Christine Assange, sem var komin til Bretlands frá Ástralíu og þakkaði viðstöddum stuðninginn.

Assange hefur verið sakaður um kynferðisbrot gegn tveimur konum í Svíþjóð. Ákæra hefur þó ekki verið lögð fram, heldur vill saksóknari fá hann til yfirheyrslu svo unnt verði að taka afstöðu til þess hvort hann verði ákærður. Ekki nægir samt að saksóknari vilji ákæra, því hann þarf að leggja málið fyrir ákærukviðdóm sem tekur ákvörðunina.

Í Bretlandi verður framsalsmálið þó ekki tekið fyrir næst fyrr en 11. janúar.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×