Erlent

Stað­festa flutninga her­manna frá Norður-Kóreu til Rúss­lands

Samúel Karl Ólason skrifar
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, mætti óvænt til Kænugarðs í vikunni.
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, mætti óvænt til Kænugarðs í vikunni. AP/Efrem Lukatsky

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir hermenn frá Norður-Kóreu hafa verið senda til Rússlands. Þar eigi þeir að aðstoða Rússa við stríðið gegn Úkraínu en óljóst sé með hvaða hætti.

Ráðherrann sagði aðkomu Norður-Kóreu að innrásinni í Úkraínu vera „mjög alvarlega“ stigmögnun og að vera þeirra í Rússlandi myndi hafa áhrif í bæði Evrópu og Asíu.

Í samtali við blaðamenn í morgun sagði Austin að í ljós yrði að koma hvað hermennirnir ættu að gera í Rússlandi eða Úkraínu og sagði hann ekki um hve marga hermenn væri að ræða, samkvæmt frétt New York Times.

Engir hermenn eru sagðir vera komnir til Úkraínu en leyniþjónustur Bandaríkjanna eru sagðar ætla að opinbera í dag gervihnattamyndir af rússneskum skipum sem hönnuð eru til að flytja hermenn, sigla frá Norður-Kóreu til herstöðva í austurhluta Rússlands.

Suðurkóreumenn birtu slíkar myndir í síðustu viku.

Sjá einnig: Kim sagður ætla að senda tólf þúsund menn til Rússlands

Ráðamenn í Suður-Kóreu hafa sagt að Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hafi sent um fimmtán hundruð sérsveitarmenn til Rússlands og að hann hafi ákveðið að senda um tólf þúsund til viðbótar.

Úkraínumenn hafa slegið á svipaða strengi á undanfarinni viku.

Tíu þúsund hermenn fyrir desember

Leyniþjónusta Suður-Kóreu gaf í morgun út nýtt mat um að þrjú þúsund Norðurkóreskir hermenn væru komnir til Rússlands og að þeir yrðu tíu þúsund fyrir desember, samkvæmt frétt Yonhap fréttaveitunnar.

Verið sé að þjálfa þá í notkun vopna og dróna, auk þess sem þeir séu að gangast annarskonar þjálfun.

Þingmaður sem ræddi við fréttaveituna hafði eftir forsvarsmönnum leyniþjónustunnar að rússneskir þjálfarar teldu norðurkóresku hermennina vel á sig komna. Þá skorti hins vegar þekkingu á nútíma hernaði og þá sérstaklega notkun dróna.

Þá sagði hann Rússa búast við miklu mannfalli meðal hermannanna frá Norður-Kóreu.

Utanríkisráðherra Suður-Kóreu kallaði sendiherra Rússlands þar í landi á teppið á mánudagsmorgun og krafðist krafðist þess Zinoviev að hermenn frá Norður-Kóreu yrðu sendir frá Rússlandi.

Rússar hafa keypt mikið magn af skotfærum fyrir stórskotalið, eldflaugar og önnur hergögn af Norður-Kóreu á undanförnum mánuðum.

Kim og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, skrifuðu þegar sá síðarnefndi heimsótti Norður-Kóreu í sumar undir varnarsamkomulag sem felur meðal annars í sér að ríkin séu bundin til að aðstoða hvort annað í stríðum.

Hersveitir Pútíns í Úkraínu eru taldar hafa orðið fyrir gífurlegu mannfalli á undanförnum mánuðum. Mönnum er nú borgað mörgu sinnum meira í bónusa við að skrá sig í herinn er gert var árið 2022 og þykir það til marks um erfiðleika við að laða að nýja hermenn.

Tilraun til að komast hjá herkvaðningu

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í vikunni að hann teldi Pútín vilja komast hjá annarri umfangsmikilli herkvaðningu í Rússlandi.

„Ég myndi ekki segja að þá skorti mannafla,“ sagði Selenskí meðal annars. Bætti hann við að ljóst væri að Pútín vildi ekki efna til herkvaðningar og þess í stað notast við hermenn frá Norður-Kóreu.

Það gæti til kynna að afleiðingar innrásarinnar í Úkraínu væru að hafa áhrif á rússneskt samfélag.

Í morgun birti Selenskí svo ávarp þar sem hann sagði Úkraínumenn vita hvernig bregðast ætti við þúsundum hermanna frá Norður-Kóreu á víglínunni, ef af yrði. Hins vegar væri gífurlega mikilvægt að bakhjarlar Úkraínu og aðrir litu ekki framhjá vandanum.

Það þyrfti að binda enda á þetta stríð en ekki framlengja það og það þyrfti að beita Rússland og Norður-Kóreu enn meiri þrýstingi. Selenskí sagði Úkraínumenn búast við viðbrögðum frá heiminum, sem yrði vonandi meira en tóm orð.


Tengdar fréttir

Í­búum Úkraínu fækkað um tíu milljónir frá inn­rásinni

Sameinuðu þjóðirnar áætla að íbúum Úkraínu hafi fækkað um fjórðung eða tíu milljónir manna frá því að innrás Rússa í landið hófst af fullum krafti fyrir tveimur árum. Fækkunin er rakin til fólksflótta, hruni í fæðingartíðni og mannfalli í stríðinu.

Menn geti komist upp með morð með því að berjast í Úkraínu

Einstaklingum sem eru handteknir í Rússlandi býðst nú að berjast í Úkraínu gegn því að mál þeirra séu sett á bið og líklega felld niður. Samkvæmt BBC virðist langt gengið í að þvinga menn til að ganga að samkomulaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×