Fótbolti

Steven Gerrard vill sjá meira af Liverpool-töfrunum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard fagnar marki Glen Johnson á móti Sunderland.
Steven Gerrard fagnar marki Glen Johnson á móti Sunderland. Mynd/Getty Images

Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, vonast eftir að liðið geti spilað jafnvel í kvöld, á móti Benfica í Evrópudeildinni, og að það gerði í 3-0 sigri á Sunderland í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

„Það sem menn sáu á sunnudaginn voru ellefu leikmenn sem smullu saman sem ein heild á sama tíma," sagði Steven Gerrard í viðtali á heimasíðu Liverpool.

„Þegar svona gerist þá verða þetta eins og töfraáhrif og liðið nær að spila eins vel og það gerði í þessum Sunderland-leik," sagði Gerrard.

„Hreyfing leikmanna var góð, sendingarnar voru nákvæmar og hraðar og það var einstaklega gaman að spila þennan leik. Það voru í raun vonbrigði þegar flautað var til hálfleiks," sagði Steven Gerrard en Liverpool skoraði tvö af þremur mörkum sínum í fyrri hálfleiknum.

„Þetta var svo skemmtilegur dagur og ég er vissum að þessi sigur hefur haft frábær áhrif á hópinn fyrir þennan mikilvæga leik á móti Benfica," sagði Steven Gerrard en Liverpool eiga ekki auðveldan leik fyrir höndum í kvöld enda enn í fersku minni margra þegar Benfica vann fyrr í keppninni 5-0 sigur á nágrönnum þeirra í Everton.

Leikur Benfica og Liverpool verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 í kvöld og hefst útsendingin klukkan 18.55. Seinni leikurinn fer síðan fram 8. apríl á Anfield.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×