Innlent

Gagnrýna hækkun eldsneytisverðs og vilja rök

Dýr dropinn Hækkanir á útsöluverði eldsneytis virðist vera vegna aukinnar álagningar olíufélaganna. Fréttablaðið/GVA
Dýr dropinn Hækkanir á útsöluverði eldsneytis virðist vera vegna aukinnar álagningar olíufélaganna. Fréttablaðið/GVA
Olíufélögin hækka eldsneytisverð á meðan heimsmarkaðsverð á olíu lækkar. Lítrinn kostar nú um 200 krónur hvar sem er á landinu. Neytendasamtökin og FÍB gagnrýna hækkanir og vilja sjá rökin fyrir þeim.

Álagning olíufélaganna á eldsneyti hér á landi hefur hækkað nokkuð þegar útsöluverð er skoðað í samanburði við heimsmarkaðsverð á hráolíu. Þetta kemur fram í Markaðspunktum Arion banka sem komu út í gær. Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) og Neytendasamtökin hafa mótmælt hækkuninni harðlega.

Útsöluverðið á bensíni hækkaði nokkuð hjá öllum olíufélögum í vikunni og er nú á bilinu 199,8 krónur upp í 201,4 krónur þegar litið er til landsins í heild. Ódýrast er það hjá Orkunni, en hæst hjá Shell, en bæði félögin heyra undir sama móðurfyrirtæki, Skeljung hf.

Í Markaðspunktum er sýnt fram á að heimsmarkaðsverð á hráolíu, umbreyttu í íslenskar krónur, hafi lækkað um 6 prósent frá áramótum á meðan útsöluverð olíufélaganna, án opinberra gjalda, hefur hækkað um 3 prósent.

Þetta er í samræmi við frétt Fréttablaðsins nýverið þar sem vísað var í tölur FÍB til að sýna fram á hækkun álagningar, en þessi nýjasta hækkun hefur mætt hörðum viðbrögðum hjá FÍB, sem og Neytendasamtökunum.

Í grein á heimasíðu samtakanna, www.ns.is, er þess krafist að olíufélögin lækki nú þegar verð á bensíni og olíu. „Ef olíufélögin telja sér ekki fært að verða við því ætlast Neytendasamtökin til að þau rökstyðji hækkanir sínar og hverjar séu ástæður þeirra,“ segir þar í niðurlagi . - þj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×