Innlent

Fræðslustjóri útilokar ekki uppsagnir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Grunnskólabörn í Reykjavík. Mynd/ Stefán.
Grunnskólabörn í Reykjavík. Mynd/ Stefán.
Það stefnir í 400 milljóna króna halla á rekstri Menntasviðs Reykjavíkurborgar á þessu ári. Níu mánaða uppgjör var kynnt í menntaráði á fundi í síðustu viku. Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri segir að hallinn sé tilkominn vegna launaliðar annars vegar og hins vegar vegna annars kostnaðar sem erfitt hafi reynst að skera niður undanfarin tvö ár.

Ragnar segir að ofmönnun sé skólakerfinu í Reykjavík vegna fækkunar barna í skólum. Hann útilokar ekki uppsagnir um áramót. „Við munum leita allra leiða til að greina þetta. En það gefur augaleið að við munum ekki ná hagræðingu með launaliðinn að öðru leyti en því að það fækki störfum. Það er ekki þar með sagt að það verði uppsagnir, það er starfsmannavelta og ýmsir þættir í skoðun," segir Ragnar. Engu sé hægt að svara um þetta hér og nú.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og VG segja, í bókun sem þeir lögðu fram á síðasta fundi menntaráðs, að þörf sé á meiri fjármunum, einkum vegna sérkennslu, langtímaforfalla og langtímaveikinda. Sérkennsla muni halda áfram að aukast enda fjölgi nemendum með greiningu um níu prósent á milli ára. Samt sé ekki gert ráð fyrir að bæta áætlaða framúrkeyrslu vegna sérkennslu sem nemi 60 milljónum á Leikskólasviði og 65 milljónum á Menntasviði. Það sé því krafist hagræðingar í sérkennslu upp á 125 milljónir króna.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og VG í menntaráði telja ámælisvert að meirihlutinn í borginni hafi ekki gert ráðstafanir til að koma í veg fyrir þennan halla sem sé á rekstri Menntasviðs. Segja þau að það endurspegli óskýr skilaboð til starfsmanna borgarinnar um það t.d. hvort verja eigi störf starfsmanna borgarinnar eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×