Innlent

Útilokar ekki uppsagnir

Grunnskólabörnum í Reykjavík hefur fækkað um nærri fimmtán hundruð á fimm árum. Hátt í sextíu starfsmönnum er ofaukið í skólum Reykjavíkur og fræðslustjóri útilokar ekki uppsagnir til að saxa á hundruð milljóna króna halla.

Eftir að búið var að gera upp rekstur grunnskóla Reykjavíkur fyrir fyrstu níu mánuði ársins varð ljóst að nú stefndi í 400 milljóna króna halla á rekstri skólanna á þessu ári. Uppgjörið var kynnt í síðustu viku. Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, segir bæði rekstur og laun hafa farið fram úr heimildum og skýringin sé ekki síst sú að of margir starfsmenn séu í skólum borgarinnar.

Hann segir að börnum í grunnskólum hafi fækkað um fimmtán hundruð frá árinu 2005. „Og það er erfitt að bremsa niður starfsmannafjölda á sama hraða," segir hann.

Ragnar segir nemendum hafa fækkað meðal annars vegna þess að lítið hafi verið byggt í Reykjavík í þenslunni, börn hafi því flutt í önnur sveitarfélög og svo hafi fólk flutt úr landi eftir hrun.

Starfsmenn sitji hins vegar fastar, færri fari í námsleyfi og launalaus leyfi og fólk taki styttra fæðingarorlof. En þýðir þessi halli að segja þurfi upp fólki í grunnskólum Reykjavíkur?

„Það er ekki hægt að útiloka það," segir Ragnar og tekur fram að miðað við fækkunina sé ofmönnunin upp á 50 til 60 störf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×