Innlent

Bilun í raflögnum möguleg orsök brunans

Verið er að rannsaka hvort bilun í raflögnum hafi valdið íkveikju í húsi við Laugaveg 40, sem skemmdist talsvert í eldi í gærkvöld. Slökkviliðsmaður slasaðist en engan íbúa sakaði. Myndatökumaður Stöðvar 2 var á vettvangi og tók meðfylgjandi myndi.

Allt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var sent að húsinu um klukkan hálf tíu í gærkvöldi eftir að vegfarendur tilkynntu um mikinn reyk upp úr þaki þess. Nálæg hús voru rýmd í öryggisskyni þar sem talsverðan tíma tók að finna upptök eldsins.

Einn þáði gistingu á vegum Rauða krossins og tveir gistu hjá vinafólki. Upptökin reyndust vera í risinu, þar sem reykháfur er upp úr þakinu. Aðstæður voru mjög erfiðar og þurfti að kalla út frívaktarmenn til að rífa járn af þakinu til að geta slökkt í einangrun. Við það verk slasaðist einn slökkviliðsmaður og var fluttur á slysadeild, þar sem hann dvaldi í nótt, en mun þó ekki vera alvarlega slasaður.

Slökkvistarfi lauk upp úr miðnætti, en slökkviliðið hafði vakt á brunastað í nótt. Eldsupptök eru ókunn. Þetta sama hús skemmdist nokkuð í eldi fyrir nokkrum árum og var þá gert upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×