Erlent

Rottur látnar þefa uppi jarðsprengjur

Rotturnar eru þjálfaðar í að þefa uppi sprengiefni. Þær eru léttari en hundar og því minni hætta á að sprengjurnar springi.nordicphotos/AFP
Rotturnar eru þjálfaðar í að þefa uppi sprengiefni. Þær eru léttari en hundar og því minni hætta á að sprengjurnar springi.nordicphotos/AFP
Í tveimur Afríkuríkjum, Tansaníu og Mósambík, hafa rottur verið notaðar með góðum árangri til þess að hreinsa jarðsprengjusvæði. Jarðsprengjur eru vandamál í meira en hundrað löndum. Þær hafa undanfarin tíu ár kostað nærri tuttugu þúsund manns lífið og limlest tugi þúsunda að auki.

Hættulegt er að hreinsa jarðsprengjusvæði, en sé það ekki gert verða íbúar landanna í hættu um ókomna framtíð. Fyrirtæki í Tansaníu, sem nefnist APOPO, hefur því brugðið á það ráð að þjálfa upp rottur til þess að sinna þessu þjóðþrifaverkefni.

Hundar hafa einnig verið notaðir með góðum árangri til að þefa uppi jarðsprengjur í sumum löndum, en annars er oftast notast við gamaldags málmleitartæki eða nýlegri ratsjárbúnað.

Rotturnar hafa þann kost að þær eru léttari en hundar og því miklu minni hætta á að sprengjurnar springi þegar þær eru að athafna sig. Afar sjaldgæft er að slíkt gerist. Þjálfun þeirra tekur einnig skemmri tíma en þjálfun hunda, auk þess sem hundarnir eru dýrari og þurfa meiri umönnun.

Reyndar munu vísindamenn í Kanada hafa komist að því að hunangsflugur er hægt að nota til að finna jarðsprengjur. Þær eru sagðar bæði nákvæmari og fljótari en hundar og rottur.

Rotturnar eru gæddar góðu þefskyni. Þær eru þjálfaðar til að þefa uppi sprengiefni. Síðan eru þær sendar út á jarðsprengjusvæði. Nákvæmlega er fylgst með þeim og þegar þær nema staðar og byrja að krafsa í jörðina er staðurinn merktur inn á kort. Þegar svæðið allt hefur verið kortlagt eru menn sendir með málmleitartæki til að fjarlægja sprengjurnar.

Þessi aðferð er miklu hraðvirkari en hefðbundin jarðsprengjuleit. Tveir menn eru venjulega heilan dag að hreinsa 200 fermetra svæði af jarðsprengjum, en með aðstoð tveggja rottna tekur það ekki nema tvo klukkutíma. gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×