Innlent

Vill spara milljarð króna í rekstri grunnskólanna

Samband sveitarfélaga vill fækka kennslustundum í grunnskólunum um þrjár til fimm í viku í sparnaðarskyni. fréttablaðið/gva
Samband sveitarfélaga vill fækka kennslustundum í grunnskólunum um þrjár til fimm í viku í sparnaðarskyni. fréttablaðið/gva

Sveitarfélögin verða að mæta átta milljarða króna tekjulækkun með lækkun rekstrarkostnaðar.

Horft er til allra rekstrarliða og telur Halldór Halldórsson, formaður Sambands sveitar­félaga, mögulegt að lækka rekstrarkostnað grunnskólanna um milljarð króna.

Kostnaður við þá er um helmingur rekstrar­kostnaðar sveitarfélaga.

„Við höfum ekki lengur efni á að gera allt sem við höfum gert og þurfum að taka út ýmislegt sem hefur bólgnað fullmikið út á síðustu árum,“ segir Halldór. „Þetta á við um lengri kennslutíma, meira val og alls konar þætti sem eru auðsjáanlega of dýrir.“

Sveitarfélögin hafa meðal annars lagt til svokallaða 5,4,3 leið. Í henni felst að fækka kennslustundum elsta grunnskólastigsins um fimm á viku, fjórar hjá miðstiginu og þrjár hjá yngstu krökkunum. Óskað hefur verið eftir samstarfi við menntamálaráðherra því sparnaðarleiðirnar geta kallað á breytingu á lögum og reglum. „Það þarf alvöru samstarf ríkis og sveitarfélaga við að ná niður kostnaði og auka sveigjanleika,“ segir Halldór sem telur skólastarfið ráðast um of af kjarasamningum kennara. Dæmi séu um að kennarar fari á yfirvinnukaup við kennslu á miðjum degi þar sem kennsluskyldunni þann daginn sé lokið. Að kennslustund lokinni sinni þeir svo öðrum þáttum starfsins á dagvinnukaupi því þeim beri að vera í vinnunni til klukkan fjögur.

Halldór telur ekki vegið að menntun þó sparað verði um milljarð í grunnskólunum. „Stundum er sagt að það megi ekki svipta ungdóm landsins möguleikum á að mennta sig. En það er enginn að tala um það. Það er ýmislegt hægt að gera án þess að það komi á nokkurn skapaðan hátt niður á menntuninni.“- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×