Innlent

Skilanefndir leika lausum hala

Fjármálaeftirlitið hefur hvorki boðvald yfir skilanefndum bankanna né eftirlit með störfum þeirra. Þær virðast því leika lausum hala.

Ársfundur Fjármálaeftirlitsins var á Hilton Nordica í dag. Í ávarpi sínu komu bæði stjórnarformaður og forstjóri FME inn á mikilvægi náins samstarfs við Seðlabankann. Eftir hrunið var rætt um að æskilegt væri að sameina þessar stofnanir að nýju, en FME var skilið frá bankanum fyrir síðustu aldamót og gert að sjálfstæðri stofnun.

„Í mínum huga er aðalatriðið upplýsingaflæðið á milli þessara tveggja stofnanna sem er bráðnauðsynlegt til þess að tryggja sem mesta skilvirkni í eftirlitsstarfi beggja stofnanna," segir Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

En hvað finnst honum sjálfum um það, er hann hlynntur sameiningu þessara stofnanna eða andvígur því? „Ég hef enga fyrirfram mótaða skoðun um sameiningu eða ekki sameiningu, fyrst og fremst er ég að horfa á upplýsingaflæðið og stefna að því að vinna náið með Seðlabankanum í framtíðinni."



Skilanefndir föllnu bankanna voru settar yfir rekstur þrotabúa þeirra í skjóli FME, en eftirlitið hefur samt ekki eftirlits- eða valdheimildir yfir nefndunum.

Er einhver að fylgjast með starfsemi skilanefndanna?

„Við erum að fylgjast með starfsemi gömlu bankanna þar sem þeir hafa enn starfsleyfi. En per se yfir starfssemi skilanefnda sjálfa, höfum við ekki neitt boðvald."

Er það gott?

„Nú skaltu spyrja ráðuneyti og löggjafa um það."

Hvað finnst þér sjálfum, ert þú þeirrar skoðunar að það eigi að gera skilanefndir og starfsemi þeirra, að eftirlitsskyldum aðilum?

„Almennt talað, er gott að allir séu settir undir einhvern aga," segir Gunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×