Innlent

Lægsta boði hafnað í Suðurstrandarveg

Samið var við Suðurverk um verkið. Mynd/ Vilhelm.
Samið var við Suðurverk um verkið. Mynd/ Vilhelm.
Vegagerðin hefur hafnað lægsta boði í síðasta kafla Suðurstandarvegar, frá Háfelli, en í staðinn samið við Suðurverk, sem átti næstlægsta boð. 63 milljóna króna munur var á tilboðunum.

Verkið felst í því að leggja síðustu fimmtán kílómetra Suðurstrandarvegar milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála vestan Grindavíkur og á vegurinn að vera tilbúinn með bundnu slitlagi haustið 2012. Fimmtán tilboð bárust og var það lægsta frá Háfelli upp á 179 milljónir króna. Sú tala var aðeins um 41 prósent af kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á 433 milljónir króna.

Vegagerðin hefur nú úrskurðað að tilboð Háfells hafi ekki staðist útboðsskilmála þar sem upplýsingar vantaði, að sögn Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðar. Í staðinn er búið að semja við Suðurverk, sem átti næstlægsta boð, en það var upp á 242 milljónir króna. Þótt tilboð Suðurverks hafi þannig verið 63 milljónum hærra en lægsta boð var það aðeins 56 prósent af kostnaðaráætlun, eða 190 milljónum króna undir henni.

Suðurverksmenn hyggjast koma sér fyrir á vinnusvæðinu fyrir lok mánaðarins, að sögn Eysteins Dofrasonar verkefnastjóra, með það fyrir augum að verkið verði komið vel af stað fyrir jól.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×