Innlent

Fátækt og einangrun

Öryrkjar búa við félagslega einangrun og fátækt og eiga erfitt með fóta sig á vinnumarkaði. Þetta segir í nýrri skýrslu sem unnin var fyrir Öryrkjabandalag Íslands.

Hinn dæmigerði öryrki er kona á fimmtugsaldri með litla menntun og ástæða örorku er í flestum tilvikum stoðkerfisvandamál eða gigt. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem unnin var fyrir Öryrkjabandalag Íslands.

Langflestir öryrkjar hafa verið á vinnumarkaði en hlotið örorku vegna sjúkdóms eða annarra áfalla. Meðal kvenna eykst hlutfallið hratt eftir fertugt.

„Fólk er búið að vinna eins og sumir segja, sína hunds og kattatíð, þar til heilsan brestur. Margar konur hafa búið við tvöfalt vinnuálag, margar hverjar erfiðisvinnu úti á vinnumarkaði og það sem tekur við þegar heim er komið," segir Guðrún Hannesdóttir, félagsfræðingur.

Í skýrslunni er dreginn upp frekar dökk mynd af stöðu öryrkja hér landi. Margir glíma við fjárhagserfiðleika, félagslega einangrun og fordóma.

Aðeins þriðjungur er á vinnumarkaði en samspil bóta og tekna dregur hins vegar úr áhuga margra á frekari atvinnuþátttöku.

Er bótakerfið vinnuletjandi?

„Það er það. Við megum ekki gleyma því heldur, að þetta eru mjög lágar tekjur sem fólk er að fá. Hitt er annað mál, að fólk sem er veikt, fólk sem hefur litla starfsgetu, það sparar við sig, það fer ekki að fara út á vinnumarkaðinn upp á von og óvon og missa síðan, það veit hvað það hefur en ekki hvað það fær," segir Guðmundur Magnússon formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Færri komast að en vilja í starfsþjálfun eða endurhæfingu eða einungis 15 prósent. Guðmundur segir ekki nóg að fá starfsþjálfun ef vinnumarkaðurinn sé ekki tilbúinn að taka við fólki.

„Í fyrsta lagi er vinnumarkaðurinn mjög ósveigjanlegur varðandi hlutastörf, og svo ekki nógu sveigjanlegur varðandi þá sem eru í góðu standi í dag en ómögulegir á morgun. Þannig að það eru ýmsir sjúklingahópar sem eru þannig staddir og það vantar umburðarlyndi í vinnumarkaðinn," segir Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×