Innlent

Birkiskógar dafna eftir eldgos

Myndin er tekin 25. maí í Þórsmörk. Þá höfðu tré laufgast, en voru tæpri viku fyrr þakin hörðu öskulagi. Mynd/Hreinn Óskarsson
Myndin er tekin 25. maí í Þórsmörk. Þá höfðu tré laufgast, en voru tæpri viku fyrr þakin hörðu öskulagi. Mynd/Hreinn Óskarsson

Birkiskógar og birkikjarr dafna í íslensku loftslagi og þola vel áföll, sem búast má við af náttúrunnar hendi, ekki síst öskufall úr eldgosum. Þetta kom fram í máli Hreins Óskarssonar, skógfræðings og verkefnisstjóra Hekluskóga, á málþingi á Reykjum um birkirækt síðastliðinn föstudag.

„Í nýafstöðnu eldgosi í Eyjafjallajökli kom berlega í ljós að hugmyndafræði Hekluskóga er að virka. Þar féll töluverð aska yfir skóga Þórsmerkur og Goðalands, allt upp í 360 tonn á hektara eða þriggja sentimetra lag,“ sagði Hreinn og kvað lítið sem ekkert fok hafa verið í sjálfum skógunum. „Stórar sem smáar birkiplöntur lifðu öskufallið af sem og skógargróður almennt.“

Hreinn segir að í ljós hafi komið eftir sumarið að öskufallið hafi eingöngu verið til bóta, enda töluverð næring í öskunni. Hreinn sagði framtíðarsýn sína að verkefni á borð við Hekluskóga verði stofnuð víða um land. „Svo sem á eldvirkum svæðum í Þingeyjarsýslum, í kring um Skjaldbreið-Haukadalsheiði, á Þorlákshafnarsöndum, í kring um Eyjafjöll og Mýrdalsjökul.“- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×