Innlent

Dregið úr flugöryggi í Evrópu

Lufthansa Samtök evrópskra atvinnuflugmanna segja vísindalegum sjónarmiðum vikið til hliðar til að forða flugfélögum frá auknum kostnaði.Mynd/AP
Lufthansa Samtök evrópskra atvinnuflugmanna segja vísindalegum sjónarmiðum vikið til hliðar til að forða flugfélögum frá auknum kostnaði.Mynd/AP
Evrópusamband atvinnuflugmannafélaga segir nýjar tillögur Flugöryggisstofnunar Evrópu að nýjum reglum um hámarks flugtíma og lengd vakta flugmanna munu draga úr flugöryggi í álfunni.

Í fréttatilkynningu frá Evrópusambandi atvinnuflugmannafélaga (ECA) segir að tillögur Flugöryggisstofnunarinnar (EASA) taki ekkert tillit til vísindalegra niðurstaðna heldur sé ætlað að forða flugfélögum frá auknum kostnaði. EASA leggi til fjórtán stunda hámarksvinnutíma flugmanna en vísindalegar niðurstöður sýni að hámarkið ætti að vera tólf stundir. Til viðmiðunar er nefnt að vinnutímahámark Evrópusambandsins fyrir vörubílstjóra sé níu stundir að degi og tíu stundir að nóttu.

„Reglurnar eru langt undir þeim væntingum sem ætti að bera til trúverðugrar stofnunar ESB í flugöryggismálum,“ segir ECA. „Verði þessum tillögum ekki breytt verulega, munu þær draga úr flugöryggi í Evrópu, einkum í þeim löndum þar sem fyrir eru í dag strangari reglur um vinnutímamörk flugáhafna.“

Philip von Schöppenthau, framkvæmdastjóri ECA, segir að vinnutímamörk eigi að taka mið af mannslíkamanum og takmörkunum líkamsklukkunnar. „EASA virðist hins vegar halda því fram að flugmenn í Evrópu þoli betur þreytu og geti unnið lengur en flugmenn í Bandaríkjunum og meira heldur en niðurstöður vísindamanna segja að sé innan öryggismarka,“ segir von Schöppenthau. - gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×