Innlent

Hörð árás á Wikileaks vekur heimsathygli

Julian Assange á ekki sjö dagana sæla.
Julian Assange á ekki sjö dagana sæla.

Fréttir um handtökutilskipun á hendur ástralanum Julian Assange, forsprakka Wikileaks-síðunnar, hefur vakið heimsathygli og er með efstu fréttum á vefmiðlum víðsvegar um heiminn. Þannig segir BBC ítarlega frá málinu auk USA Today. CNN og Sky News fjalla einnig um málið.

Julian var eftirlýstur vegna gruns um nauðgun og misbeitingu. Það var sænska götublaðið Expressen sem sagði fyrst frá málinu.

Síðar var handtökutilskipunin afturkölluð af sænskum yfirvöldum en nýjustu fregnir herma að hann sé enn grunaður um misbeitingu.

Málið hefur vakið upp áleitnar spurningar en Wikileaks hefur legið undir gríðarlega harðri gagnrýni vegna uppljóstrunar á 90 þúsund trúnaðarskjölum sem láku til forsvarsmanna síðunnar frá bandaríska varnamálaráðuneytinu.

Þrýstingurinn hefur ekki farið framhjá Íslendingum en dóttir Dick Cheneys, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, skoraði á íslensk stjórnvöld að loka fyrir síðuna. Ástæðan var sú að Julian Assange hefur dvalið nokkuð hér á landi.

Þá hefur uppljóstrunin haft mikil áhrif á bandaríska þinginu en þar var deilt um viðbótarfjárframlög til stríðsins í ljósi gagnanna sem þegar hafa verið birt.

Vísir ræddi við fréttamanninn Kristinn Hrafnsson í dag en hann hefur unnið náið með Julian Assange. Hann sagði ásakanirnar ekki hafa komið þeim á óvart en þeir hafi búist við einhverskonar ófrægingaherferð af hálfu bandarískra stjórnvalda.

Wikileaks-menn hafa verið gagnrýndir harðlega fyrir að ógna öryggi hermanna í Írak og Afganistan með birtingu gagnanna. Svo virðist sem bandarísk stjórnvöld séu tilbúin að leggja mikið á sig til þess að koma í veg fyrir birtingu þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×