Innlent

Arnar Már borinn út í kyrrþey

Valur Grettisson skrifar
Arnar Már flutti eldræðu inn í Landsbankanum.
Arnar Már flutti eldræðu inn í Landsbankanum.

Arnar Már Þórisson, verktaki, var borinn út í gærmorgun en sjálfur segir hann í orðsendingu til fjölmiðla að hann hafi verið borinn út í kyrrþey.

Arnar átti heimili að Laufásvegi 65 en Heimavarnarliið hafði áður varnað sýslumanni að fylgja útburðinum eftir. Í orðsendingunni sem Arnar Már sendi frá sér segir að sýslumaður ásamt lögmönnum frá Pactas hafi farið að heimili hans í gærmorgun og skipt um lása á heimilinu.

Sjálfur segir Arnar Már í orðsendingu sinni: „Til stóð að útburðurinn færi fram 02.11.2010 og fékk ég tilkynningu þess efnis, ég mótmælti þeim útburði og fékk Heimavarnarliðið til þess að aðstoða mig í þeim efnum.

Sýslumaður lét ekki sjá sig á tilsettum degi, heldur framkvæmdi útburðinn rúmri viku seinna, ótilkynnt og þar sem ég var við vinnu gat ég ekki varið mig á neinn hátt."

Arnar hefur vakið þjóðarathygli undanfarið vegna baráttu sinnar við að halda heimili sínu. Meðal annars fór hann inn í Landsbankann þar sem hann las upp yfirlýsingu. Myndband þess eðlis fór eins og eldur í sinu um veraldarvefinn.

Heimavarnarliðið hefur stutt hann í baráttunni. Meðal annars biðu meðlimir varnarliðsins fyrir utan heimili Arnars þegar það átti að bera hann út fyrr í mánuðinum.

Í þar síðustu viku sagði DV frá því að Arnar Már væri óeðlilega skuldsettur. Meðal annars var húsið hans í eigu félags sem skuldaði hundruð milljóna.

„Ég er ekki að biðja um að allar skuldir mínar verði felldar niður. Ég er ábyrgur gjörða minna og fór kannski bratt í því ástandi sem var þá. Ég tek ábyrgð á því. En ef bankinn skiptir um kennitölu á einni nóttu þá hljóta þeir að geta gert við mig leigusamning," sagði Arnar Már í viðtali við Vísi í síðustu viku.

„Ég var sjálfstæður verktaki, ekki svindlari," bætti Arnar Már við og áréttaði að hann hefði ekki keypt sér hlutabréf eða farið í einhvern forstjóraleik, eins og hann orðar það.

„Ég fór á hverjum degi í vinnugallann og út að vinna."


Tengdar fréttir

Kexinu lokað: Þetta er bara eins og golfklúbbur

„Þetta er bara klúbbur, eins og golfklúbbur,“ sagði Arnar Már Þórisson, einn af eigendum klúbbsins Kex á Barónstíg en lögreglan lokaði staðnum á þriðjudagskvöldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×