Erlent

Bók til varnar barnaníðingum olli usla á Amazon

Netbóksalan Amazon, sú stærsta sinnar tegundar í heiminum, lenti í vandræðum vegna bókar sem seld var á vefnum og er einskonar leiðarvísir fyrir barnaníðinga. Amazon hefur ávallt gefið rithöfundum sem gefa bækur sínar út sjálfir færi á að selja þær í vefversluninni gegn hluta af hagnaðinum.

Fjölmargir viðskiptavinir hótuðu því að hætta viðskiptum við verslunina en bókin heitir Leiðarvísir pedófílsins, eða "Pedophile's Guide to Love and Pleasure: a Child-lover's Code of Conduct." Í bókinni, sem gefin er út á rafrænu formi, er því haldið fram að þeir sem haldnir séu barnagirnd séu misskildir einstaklingar og segist höfundurinn, Philip Greaves, því hafa skrifað einskonar leiðarvísi sem hjálpi þeim að fara að lögum. Í viðtali við CNN sagði hann að „sannir pedófílar elski börn og myndu aldrei meiða þau."

Eigendur Amazon eru í klemmu, þeir segjast ekki vilja selja bækur sem ýti undir glæpsamleg athæfi, en hinsvegar vilji þeir forðast ritskoðun í lengstu lög. Höfundar sem selja bækur á síðunni eru látnir samþykkja reglur sem banna ósiðlegt og meiðandi efni. Útlistun á því hvað sé ósiðlegt er hinsvegar hvergi að finna, heldur er höfundunum í sjálfsvald sett að meta það. Eftir að fjölmargir höfðu mótmælt bókinni var þó ákveðið að taka hana úr sölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×