Innlent

Heimsfrægt tónskáld viðstatt tónleika með eigin verkum

Sir John Taverner verður á tónleikunum í kvöld
Sir John Taverner verður á tónleikunum í kvöld
Hið heimsfræga breska tónskáld Sir John Tavener er komið hingað til lands til að vera við útgáfutónleika Kammerkórs Suðurlands, sem haldnir verða í Kristskirkju í Landakoti í kvöld.

Kammerkór Suðurlands ásamt einsöngvurunum Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur, Hrólfi Sæmundssyni, Margréti Stefánsdóttur, breska bassasöngvaranum Adrian Peacock og kammersveit flytur verk eftir Sir John Tavener af nýútkomnum diski sínum, IEPO ONEIPO - Heilagur draumur.

Diskurinn inniheldur tíu tónverk eftir Sir John Tavener og er gefinn út af Smekkleysu. Tavener er meðal helstu nútímatónskálda Breta, fæddur 1944. Breska tónlistarpressan hefur fjallað lofsamlega um diskinn að undanförnu. Umsagnir gagnrýnenda urðu til þess að tónskáldið og kona hans, Lady Marianne Tavener, ákváðu að koma hingað frá London til að vera viðstödd útgáfutónleikana. Það er einstakt að Sir John Tavener skuli koma til Reykjavíkur af þessu tilefni, því hann er heilsuveill og ferðast afar sjaldan nú orðið.

Einsöngvararnir Guðrún Jóhanna og Hrólfur koma til landsins sérstaklega af þessu tilefni, og það gerir einnig breski bassasöngvarinn Adrian Peacock, sem hefur lagt sérstaka rækt við túlkun verka Taveners á ferli sínum.

Það telst til mikilla tíðinda að diskur áhugamannakórs nái slíkum árangri. Aðspurður segir stjórnandi og stofnandi kórsins, Hilmar Örn Agnarsson, hæversklega að þetta eigi sér eðlilegar skýringar, á Suðurlandi sé einfaldlega rík sönghefð og mjög mikið af vel skóluðu söngfólki




Fleiri fréttir

Sjá meira


×